Vestfirðingar jákvæðir með nýja landsliðsbúninginn

Eins og þjóðinni allri er eflaust kunnugt, hefur nýr landsliðsbúningur verið opinberaður. Sitt sýnist hverjum um nýja útlitið, enda varla til sá Íslendingur sem ekki fylgist með Íslenska landsliðinu, sem nú undirbýr sig fyrir HM 2018 í Rússlandi. Eitt er víst að það munu eflaust margir klæðast landsliðstreyjunni næsta sumar, hvort sem búningurinn þykir prýði eða ekki.

BB fékk til liðs við sig nokkra vel valda Vestfirðinga og bað þá um að segja álit sitt á nýja landsliðsbúningnum. Ekki er annað að sjá en að almenn ánægja ríki um búninginn, sem og bjartsýni fyrir árangri liðsins næsta sumar.

Andrea Kristín Jónsdóttir, sveitastjóri hjá Strandabyggð:

„Mér finnst búningurinn súperflottur. Rauði er þó sístur, þar sem rauði liturinn er ekki alveg í réttum tóni að mínu mati. Við megum vera stolt af búningnum og vonandi byggir hann upp það sjálfstraust hjá liðinu, sem það þarf til að nýta kraftana til fulls í krefjandi aðstæðum. Áfram Ísland!“

 

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð:

„Hann er flottur, ég ætla að fá mér treyju.“

 

 

Baldur Smári Einarsson, viðskiptafræðingur:

„Mér líst ljómandi vel á nýja búninginn hjá landsliðinu og finnst hann mun flottari en síðasti búningur. Búningurinn er glæsilegur á að líta, fallegur blár með svolitlu rauðu ívafi. Ég hef fulla trú á að strákarnir eigi eftir að standa sig vel á leikvellinum í honum á HM í Rússlandi í sumar. Ég ætla pottþétt að eignast eintak af þessum búningi og nota hann óspart þegar ég fer í ræktina í Musterinu á næstunni – það yrði góð tilbreyting frá Liverpool þemanu sem ég er þekktur fyrir.“

 

Samúel Sigurjón Samúelsson, framkvæmdastjóri Fiskmarkaðs Vestfjarða:

„Mér finnst búningurinn mjög fallegur, samsetningin góð og allir litir njóta sýn. Sniðið er glæsilegt og hann á eftir að fara Andra Rúnari Bjarnasyni mjög vel.“

 

 

-Margrét Lilja Vilmundardóttir

 

 

DEILA