Umhverfisstofnun kúvendir skoðunum á fiskeldi í Skutulsfirði

Sjókvíar Hábrúnar í Skutulsfirði.

Umhverfisstofnun telur 300 tonna aukið fiskeldi Hábrúnar ehf. í Skutulsfirði líklegt til að valda umtalsverðum umhverfisáhrifum. Þetta kemur fram í umsögn stofnunarinnar til Skipulagsstofnunar. Umhverfisstofnun segir að áform Hábrúnar séu háð mati á umhverfisáhrifum.

Hábrún er með leyfi fyrir 400 tonna framleiðslu á þorski og regnbogasilungi og sendi inn matsskyldufyrirspurn til Skipulagsstofnunar um aukna framleiðsluna um 300 tonn. Með matsskyldufyrirspurn er skorið úr um hvort að framkvæmdin skuli sæta umhverfismati.

Í fyrra sótti fyrirtækið um að stækka eldið í samtals 1.000 tonn. Skipulagsstofnun úrskurðaði að stækkunin skyldi sæta umhverfismati og var ákvörðun Skipulagsstofnun fyrst og fremst byggð á neiðkvæðri umsögn Hafrannsóknastofnunar.

Það sem vekur athygli er að í júlí í fyrra gaf Umhverfisstofnun jákvæða umsögn um stækkunaráform Hábrúnar og taldi stofnunin að stækkun um 600 tonn væri ekki líkleg til að valda umtalsverðum umhverfisáhrifum og stækkunin því ekki háð umhverfismati. Í umsögn í febrúar 2018 segir sama stofnun að helmingi minni stækkun sé líkleg til að valda umtalsverðum umhverfisáhrifum og sé því háð mati á umhverfisáhrifum.

DEILA