Tekjur hreppsins aukast verulega á framkvæmdatíma Hvalárvirkjunar

Ós Hvalár í Ófeigsfirði.

Með virkjun Hvalár í Ófeigsfirði munu þriggja fasa rafmagn og ljósleiðari komast á í Árneshreppi, annað hvort strax í upphafi framkvæmda eða í upphafi reksturs virkjunarinnar. Tekjur sveitarfélagsins munu aukast verulega á framkvæmdatíma og nokkuð á rekstrartíma auk þess sem ný störf geta orðið til á framkvæmdatíma. Þetta er meðal helstu niðurstaðna nýrrar skýrslu Rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Akureyri (RHA) um mat á samfélagsáhrifum Hvalárvirkjunar á Árneshrepp. Skýrslan er unnin að beiðni VesturVerks.

Strax á framkvæmdatíma virkjunarinnar munu tekjur Árneshrepps aukast vegna útsvars starfsmanna en reynsla af sambærilegum framkvæmdum sýnir að meirihluti vinnuaflsins hefur verið erlent með lögheimili í vinnubúðum og mun því greiða útsvar til sveitarfélagsins. Yfir framkvæmdatímabilið er líklegt að aukalegar tekjur vegna þessa verði á annað hundrað milljóna króna, hugsanlega hærri.

Á rekstrartíma virkjunar mun Árneshreppur fá fasteignagjöld af virkjunarbyggingum og er líklegt að fasteignaskatturinn verði 20 – 30 milljónir króna á ári. Á móti kemur að framlög úr jöfnunarsjóði gætu lækkað með hærri tekjum sveitarfélagsins.

Í skýrslunni segir að á framkvæmdatíma verða tækifæri á störfum fyrir heimamenn, m.a. sauðfjárbændur. Aðgangur að öðrum störfum býr til betri grundvöll fyrir sauðfjárbúskap. Á rekstrartíma virkjunar skapast líklega engin störf vegna hennar.

Líklegt að mest af þjónustu sem þarf vegna framkvæmdanna verði sótt út fyrir Árneshrepp en búast má við einhverri notkun á þjónustu og afþreyingu á staðnum s.s. vegna starfsmanna. Gera má ráð fyrir að auka þyrfti þjónustu Árneshrepps á framkvæmdatíma með starfsmanni á skrifstofu. Á rekstrartíma verða lítil sem engin áhrif á þjónustu í Árneshreppi vegna virkjunarinnar.

Á framkvæmdatíma virkjunar er líklegt að samgöngur verði betri, Strandavegi jafnvel haldið opnum lengur, flugferðir verði tíðari og nýjum vegi í Ófeigsfjörð haldið opnum allt árið. Að framkvæmdatíma loknum er ekki líklegt að samgöngur verði betri en nú er nema að yfir sumartímann verði hægt að nýta sér nýjan veg í Ófeigsfjörð og jeppaslóða yfir Ófeigsfjarðarheiði.

DEILA