Skíðavikan sett með pompi og prakt

Það var mikil stemmning við Silfurtorg þegar Skíðavikan 2018 var sett á Ísafirði í dag, miðvikudag. Fjölmenni mætti við setninguna og um torgið ómuðu hljómar Lúðrasveitar Ísafjarðar. Sannkölluð Týrólastemmning og ekki spillti ilmurinn af hlóðum Skíðafélagsins sem bauð upp á kakó, pönnukökur og fiskisúpu.

Búið var að aka hlassi af snjó á Hafnarstrætið og dreifa úr frá Stjórnsýsluhúsinu upp að Landsbanka þar sem útbúin var skíðagöngubraut fyrir Craftsport sprettgöngumótið.

Þessi stærsta bæjarhátíð Ísfirðinga, (partur af henni er „Aldrei fór ég suður“ sem bættist við fyrir mörgum árum) hefur reyndar verið haldin árlega síðan 1935, ef frá eru talin nokkur ár þegar hún féll niður á níunda áratug síðustu aldar. Skíðafélagið endurvakti Skíðavikuna árið 1989 og hefur alla tíð borið hitann og þungann af skipulagi og framkvæmd hátíðarinnar. Það er mörgum eldri Ísfirðingum minnistætt þegar Gullfoss mætti á Skíðaviku, fullur af farþegum, og alla tíða hafa gestir hátíðarinnar verið margir. Fátt jafnast á við að hitta brottflutta Ísfirðinga sem hingað koma til að taka þátt og gleðjast með ættingjum og vinum.

Þrátt fyrir austan þræsing var stemmningin góð og veðurhorfur til skíðaiðkunar ágætar fyrir páskahelgina. Bjart en kalt með stilltu veðri og útlit fyrir góða skíðadaga á Seljalandsdal og í Tungudal. BB mun fylgjast með hátíðinni og birta reglulega fréttir, myndir af atburðum og framvindu  Aldrei fór ég suður og fleiri glæsilegra viðburða á Skíðaviku 2018.

Ljósmyndari Hafdís Gunnarsdóttir

-Gunnar