Segir stefnuleysi stjórnvalda ná miklum lágpunkti

Gísli Halldór er ómyrkur í máli um vegagerð á Dynjandisheiði.

Fréttir vikunnar um að nýr vegur um Dynjandisheiði fari í útboð í fyrsta lagi árið 2020 leggst ekki vel í fólk á Vestfjörðum. Sama ár verða Dýrafjarðargöng tekin í gagnið en endurbættur eða nýr vegur um Dynjandisheiði er forsenda þess að göngin nýtist til fulls. Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, er ómyrkur í máli og segir það einfaldlega fáránlegt ef stjórnvöld ákveða að ekki eigi að nýta þá miklu fjárfestingu sem liggur í Dýrafjarðargöngum fyrr en mörgum árum eftir að gangagerðinni lýkur. „Þá hefur stefnuleysi íslenskra stjórnvalda náð miklum lágpunkti,“ segir Gísli Halldórs.

Í svari G. Péturs Matthíassonar, upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar, við fyrirspurn bb.is kom fram að umhverfismati á nýjum vegi yfir heiðina ljúki ekki fyrr en næsta vor og þá fyrst hefst vinna við hönnun og gerð útboðsgagna. Ef fjárveiting fæst ætti verkið að vera tilbúið í útboð veturinn 2019-2020.

Gísli Halldór segir að ef vilji er til hljóti að vera hægt að klára umhverfismat á þessu ári sem og undirbúning útboðs.

Fyrir fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar í dag liggur fyrir ályktun Gísla Halldórs um málið.

DEILA