Mikil hækkun á fasteignagjöldum sumarhúsa í Tunguskógi

Í framhaldi af endurmati Þjóðskrár á fasteignamati sumarhúsa í Tunguskógi hækkuðu fasteignaskattar til Ísafjarðarbæjar um 70%, lóðarleiga um 160% og vatnsgjald um 70% vegna ársins 2018.

Lóðaleiga hækkað mest 170% og  virðist hafa mikil áhrif að hverfið er í nálægð við Golfvöllinn og Buná, en ekki er tekið tillit til þess að ívera er ekki heimil nema hluta ársins.  Einnig hefur gleymst að taka tillit til þess að hverfið nýtur lítillar þjónustu frá Ísafjarðarbæ.

Erindi um málið var sent til bæjarráðs Ísafjarðarbæjar og skýringa á þessum miklu hækkunum krafist. Svar við fyrirspurninni barst rétt eftir bæjarráðsfund 5. febrúar  þess efnis að bæjarstjóra hefði verið falið að ganga í málið. Eftirfarandi bókun var gerð á fundinum:

„Kynnt bréf Kristínar Hálfdánsdóttur, dagsett 2. febrúar sl., þar sem óskað er útskýringa á hækkunum á fasteignagjöldum á sumarbústaðnum Birkilaut í Tunguskógi.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar felur bæjarstjóra að kanna hvort og með hvaða hætti hægt sé að bregðast við þessari miklu hækkun, í ljósi þeirrar takmörkuðu notkunar sem heimil er á þessum tilteknu sumarbústöðunum. Ástæða hækkunar fasteignagjalda er mikil hækkun lóðarmats sumarbústaðalóða“

Eigendur nokkurra sumarhúsa hafa sent formlegar kvartanir vegna hækkunar matsins til Þjóðskrár, en ekki haft erindi sem erfiði hingað til, eigendum til mikilla vonbrigða.

-gunnar

 

 

 

DEILA