Umhverfið og barnið / barnið og umhverfið

Jenný Jensdóttir aðstoðarleikskólastjóri Sólborg

Leikskólinn Sólborg starfar i anda Reggio Emilia hugmyndafræðinnar sem kennd er við borgina Reggio Emilia á Norður-Ítalíu. Í leikskólum Reggio er litið á umhverfið sem þriðja kennarann. Þá er átt við að kennarar eru ekki bara leikskólakennarar heldur líka börn og umhverfið. Með umhverfi eiga þeir jafnt við umhverfið innan leikskólans sem utan hans. Í leikskólum Reggio er lögð áhersla á að börnin kynnist því liðna til að fletta inn í núið og byggja saman framtíð. Einnig hafa fræðimenn túlkað að Reggio leikskólar leggi mikla áherslu á að efla sjálfsvitund barna samhliða söguvitund, grenndarvitund og umhverfisvitund.

Hugsuðurinn að baki hugmyndafræði Reggio Emilia er sálfræðingurinn Loris Malaguzzi og byggjast hugmyndir hans t.d. á kenningum John Dewey, Vygotsky og Jean Piagets.

Klakinn er forvitnilegur og mikilvægt að kanna hann, drullan er aukatriði

Loris Malaguzzi áleit að börn hefðu meðfædda hæfileika til að lesa umhverfi sitt með öllum skilningarvitum og afla sér þannig fróðleiks og þekkingar.  Hann sagði að börn hefðu „100“ mál og ætti að hvetja þau til þess að nota öll sín skilningarvit og þá hæfileika sem þau búa yfir. Uppeldisstarfið í anda hans miðar að auganu sem sér og hendinni sem framkvæmir. John Dewey talaði um mikilvægi samfellu í námi, byggðri á reynslu og forsendum nemandans en það er undirstaða þess að nemandi byggi upp reynslu, þekkingu, færni og viðhorf. Máltakið „learnig by doing“, eða „að læra með því að gera“ kemur frá Dewey. Lev Vygotsky sagði að nám ætti sér stað í félagslegu samhengi.  Í þessu sambandi talar hann um ,,svæði mögulegs þroska“ eða ,,Zone of proximal development“, eða það svæði sem er milli þess sem barn getur eða skilur sjálft án aðstoðar og þess sem barn getur eða skilur með hjálp kennara eða skólafélaga.  Með aðstoð annarra í félagslegu umhverfi lærir barn að hegða sér á vitrænan hátt sem einstaklingur. Jean Piaget sagði að börn þyrftu að hafa hluti til að læra af en ekki bara bók og blýant. Hann lagði áherslu á uppgötvunarnám.  Börn eru forvitin og læra mest með því að rannsaka umhverfið og byggja þannig upp nýja þekkingu. Barnið lærir með því að byggja ofan á fyrri reynslu og skilning

Við í leikskólanum Sólborg lítum svo á að umhverfið eigi að mótast af þeim börnum sem eru í skólanum hverju sinn og gefum okkur leyfi til að horfa á barnið sem er hér og nú. Í umhverfinu innan veggja leikskólans birtist menning hans og fyrir hvað hann stendur. Sólborg er leikskóli í stöðugri þróun, þar sem börn og fullorðnir eru í góðu sambandi hvert við annað. Með þessari grein langar okkur hér í leikskólanum Sólborg að vekja athygli ykkar á starfi barna og gefa ykkur innsýn í barnamenninguna hér á Ísafirði. Þannig viljum við tengja saman menningu barna og fullorðinna og skapa með því  traust, samkennd og virðingu milli kynslóða, þar sem við tilheyrum og erum öll hluti af samfélagi. 

Þemað „Barnið og umhverfið og umhverfið og barnið“ 

Deildirnar í leikskólanum hafa farið ólíkar leiðir að þemanu og stafar það bæði af aldri og fyrri reynslu barnanna en aðaláherslan var að fylgja eftir hugmyndum og áhuga barnanna á viðfangsefninu, sem var umhverfið. Hver hópur eða deild notar könnunaraðferðina (project approach) til að finna eða velja efni út frá þemanu, finna sér viðeigandi markmið og leiðir sem slá í takt við sameiginleg yfirmarkmið, sem sjást hér að neðan, sem og hugmyndafræði Reggio Emilia. Bót, deild yngstu barnanna, er undanskilin þessari aðferð, þó svo að þau hafi unnið að sömu markmiðum, á þeirra einstaka hátt.

Sameiginleg markmið okkar er varðar þemað og Reggio-starfið  í vetur voru þau að;

  • Efla og bera virðingu fyrir umhverfinu, börnunum, kennurunum og okkur sjálfum.
  • Bæta og efla náttúrulegan efnivið í leikskólanum, nægjusemi og nýtni.
  • Læra að þekkja umhverfið í grennd við leikskólann og hvað það bíður upp á.
  • Læra að umgangast og virða náttúruna í nánasta umhverfi sem og annastaðar, hvort sem hún er villt eða tilbúin.
  • Efla alhliða hreyfingu.
  • Kynnast náttúrunni með því að nota skynfærin þ.e. lykta, bragða, horfa, finna, hlusta og snerta.

Viðfangsefni barnanna „Umhverfið og barnið / barnið og umhverfið“ er úr umhverfi þeirra og nálgunin hefur merkingu fyrir þau. Í þema og könnunarstarfinu eru allir námsþættir leikskólans fléttaðir inn í, í gegnum leikinn úti sem inni. Þar leggjum við áherslu á að börnin upplifi og efli alhliða þroska, þau auki sjálfstæði sitt og áhugasvið, þau þroski með sér félagsfærni og samkennd, frumkvæði og sköpunarkraft, og verði örugg í tjáningu og samskiptum. Hér á eftir koma dæmi um nokkra námsþætti sem unnið er með í leikskólanum.

Leikið í snjónum

Leikurinn

Leikurinn er mikilvægasti námsþátturinn. Hann skiptist í frjálsan leik og kennslufræðilegan leik. Frjáls leikur virkjar sköpunarkraft barnanna og löngun til að læra og afla sér þekkingar, þar sem þau eru sérfræðingar í eigin upplifun og gleðin sem fylgir leiknum gerir hann að skemmtilegu ferli sem leiðir af sér nám. Kennslufræðilegur leikur er frekar nýtt hugtak innan leikskólans. En þar eru námsmarkmiðum blandað inn í leikinn og kennarinn skipulegur umhverfið, tímann og efniviðinn og reynir þannig að hafa áhrif og stýra leiknum í átt að þeim námsmarkmiðum sem unnið er með. Þessi aðferð krefst mikils af kennaranum, þannig að börnin missi ekki áhugana á leiknum.

 Félagsfærni

Samfélög nútímans eru  síbreytilegri og í örri þróun sem kallar á góða félagsfærni einstaklinga. Með aukinni hnattvæðingu og fjölbreyttari menningu í samfélögum eru góð samskipti og félagsfærni barna mikilvægur í öllu leikskólastarfi.  Í Sólborg er leitast við að gefa börnum kost á að tileinka sér ákveðna færni í samskiptum og lífsviðhorfum sem byggir á virðingu fyrir sjálfum sér, öðrum, umhverfinu og fjölbreytileika samfélagsins. Að þjálfa félagsfærni, góð samskipti og jafnræði barna skiptir mjög miklu máli í leikskólanámi þeirra. Unnið er að því að börnin þrói góða færni í að leika sér saman og vinna að sameiginlegu verkefni. Þau taka þátt í lýðræðislegum athöfnum, setja fram hugmyndir og þurfa jafnframt að skilja hlutina frá sjónarmiði annarra. Þróa þannig með sér vináttu og samkennd og öðlast sterkari sjálfsmynd og fá að skapa sína eigin menningu.

Í útinámi og vetvangsferð í haust

 Hreyfing

Hreyfing er einnig stór þáttur í námsþáttum leikskólans sem eykur bæði gleði, snerpu, styrk, þol, liðleika og samhæfingu sem stuðlar að líkamlegri og andlíðan vellíðan. Því er rík áhersla lögð á að virða hreyfiþörf barnanna þannig að þau fá tækifæri til að hreyfa sig sem mest frjálst bæði innan dyra og utan. Útiveran er einhver mikilvægasta leikstund barna og okkar útileiksvæði í Sólborg býður upp á fjölbreytta hreyfingu. Einnig leggjum við mikla  áherslu á ýmiskonar gönguferðir og vettvangsferðir bæði í nærumhverfi og einnig út um allan bæ, upp í fjall og ofan í fjörur.

Börnin búa til stein og velja liti og formið sjálf

 Læsi

Að setja orð á athafnir og upplifanir er eitt af lykilatriðum í þróun læsis leikskólabarna. Markviss málörvun, þá sérstaklega hljóðkerfisvitund, hlustun, lesskilningur og orðaforði, er tekin fyrir í sérstökum stundum hér í Sólborg. Við, ásamt öllum leikskólum Ísafjarðarbæjar, tökum þátt í læsisverkefninu Stillum saman strengi, en þar vinnum við markvisst með að örva málþroska og læsi barna. Læsi í leikskóla snýst þó ekki eingöngu um markvissa málörvun til að efla færni í íslensku og undirbúning fyrir lestranám, heldur felur það einnig í sér vissa færni, leikni og hæfni til að lesa í umhverfið og tjá upplifanir, tilfinningar og skoðanir á fjölbreyttan hátt.  Lykillinn er fjölbreytileikinn, að nota allar stundir og öll þau tækifæri sem gefast í leikskólastarfinu til að leggja grunn að góðu læsi og góðri færni á umhverfið, hvort sem það er þegar börnin eru í fataklefanum á  leið út eða inn, við matarborðið að borða, í söngstund, í útiveru, í frjálsum leik eða í hvaða skipulögðum verkefnum sem kennarar setja upp eins og vettvangsferðum þar sem hljóðkerfisvitund er tekin fyrir með því að hlusta á hljóðin í umhverfinu og náttúrunni og aðgreina þau, s.s. fuglasöngur, fótatak, sjávarniður, vindurinn o.fl.

Eins og þið sjáið með þessari upptalningu okkar, þá er mikið og metnaðarfullt starf unnið í leikskólanum Sólborg og við erum stolt og ánægð með leikskólann okkar. Um páskana bjóðum við bæjarbúum og gestum upp á myndlistasýninu í gluggum og á veggjum fyrirtækja víðsvegar í bænum þar sem verkefni úr könnunarnámi barnanna í vetur verða til sýnis. Við vonum að þið njótið vel.

Gleðilega páska, fyrir hönd leikskólans Sólborgar, Jenný Jensdóttir aðstoðarleikskólastjóri

Hvað varð um snjóinn, það er bara vatn í skálinni

 

 

 

 

 

 

Hugrekki og, hreyfing og þor er meðal annars það sem börn upplifa í könnunarnámi leikskólans

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

-Jenný

DEILA