Hvar er staðfesta meirihlutans?

Daníel Jakobsson formaður bæjarráðs í Ísafjarðarbæ.

Það er vissulega kostur að geta tekið rökum og skipt um skoðun. Engu að síður er mikilvægt að vera  gæddur einhvers konar staðfestu – ekki síst við stjórn bæjarfélags, sem rekið er fyrir skattfé íbúanna.

Ég vek athygli á þessu vegna þess að í upphafi þessa kjörtímabils stóð til að fara í hönnunarsamkeppni um skipulag Torfnessvæðisins. Meirihlutinn féll frá því, vildi heldur nýta fjármunina í tengslum við endurbyggingu Sundhallarinnar á Austurvegi og lagði 20 milljónir króna í hönnunarsamkeppni. Ef maður er á þeirri skoðun að endurbyggja skuli Sundhöllina, sem Í-listafólki hlýtur að hafa þótt spennandi úr því að lagt var upp í verkefnið, er vinningstillagan mjög vel heppnuð. Hún uppfyllti öll skilyrði samkeppninnar, er innan þess kostnaðarramma sem hefði mátt ætla að breytingar kostuðu og er að mörgu leyti vel heppnuð.

Myndir af heitum pottum á nýjum stað

Því skýtur það skökku við að þrátt fyrir að hafa staðið fyrir samkeppninni, fengið allar sínar óskir uppfylltar og lagt í verkið 20 milljónir af almannafé virðist meirihlutinn hafa svæft málið svefninum langa. Ekki hefur einu sinni tekist að spyrja bæjarbúa álits á tillögunni eins og til stóð og enginn fulltrúi meirihlutans hefur lýst opinberlega yfir stuðningi við tillöguna.

Á samfélagsmiðlum birta nú bæjarstjóri og forsvarsmenn Í-listans teikningar af heitum pottum á allt öðrum stað í bænum – á Torfnesi! Bæjarráðsmaðurinn ég, sem lagði það til strax á árinu 2014 að farið yrði í hönnunarsamkeppni um skipulag á Torfnesi, spyr: Er tillaga meirihlutans ekki lengur sú að endurbæta Sundhöllina við Austurveg? Ef svo er ekki þá skuldar meirihlutinn bæjarbúum skýringu á þessu 20 milljónum sem settar voru í hönnunarsamkeppnina og tók starfsmenn bæjarins heilan vetur að undirbúa með tilheyrandi kostnaði.

Nýtt stórverkefni án stefnumótunar

Nú er meirihlutinn lagður nánast fyrirvaralaust af stað í annað stórverkefni án þess að fyrir liggi stefnumótun eða þarfagreining. Framkvæmdir eru sagðar eiga að hefjast strax í sumar. Verkefnið er ný líkamsræktarstöð á Torfnesi. Á síðasta bæjarráðsfundi lagði ég fram tillögu þess efnis að við skoðuðum betur þá tillögu sem nú liggur á borðinu. Ekki vegna þess að ég sé á móti hugmyndinni heldur vegna þess að ég tel að þegar við ætlum okkur að setja hátt í hálfan milljarð króna af skattfé bæjarins í slíka framkvæmd sé mikilvægt að hún sé vel ígrunduð og hönnuð með þarfir bæjarbúa í huga.

Á fundinum lagði ég til að farið yrði í þarfagreiningu fyrir framkvæmdina og kannað um leið hvort betri lausnir væru í boði, bæði með hliðsjón af líkamsræktinni og framtíðarnotkun hússins.

Tillögum mínum var hafnað og meirihlutinn telur enga ástæðu til að staldra við. Það eru jú að koma kosningar.

-Daníel Jakobsson

DEILA