Hamfarir af mannavöldum.

Haraldur Benediktsson.

Sl. vor hafði fv þingmaður NV kjördæmis, Teitur Björn Einarsson, frumkvæði að umræðu um stöðu sjávarútvegs á alþingi.  Tilefnið var ærið.  Verkfall sjómanna, lækkandi verð á fiski, staða gengismála og sú staðreynd að veiðigjöld voru að stórhækka.  Tekjur ríkissjóðs af veiðigjöldum hækka gríðarlega á milli ára – á sama tíma og afkoma útgerðar hrynur.  Álagning og fjárhæð veiðigjalda sem nú er verið að greiða – er á framlegð og afkomu sem ekki er í neinu samræmi við veruleikan í dag.

Hækkun þeirra gjalda er úr 5,5 milljörðum í ríflega 10 milljarða, það er högg.

Segja má að höggið sé tvöfalt fyrir mjög margar útgerðir í NV kjördæmi, og víðar– þar sem afsláttur vegna skulda hefur fallið niður.

Niðurstaða þeirrar umræðu sem Teitur Björn hóf – var að sjávarútvegsráðherra lér vinna greiningu á stöðu útgerðar.  Helstu niðurstöður þeirrar greiningar Deloitte eru eftirfarandi:

  • Tekjur í sjávarútvegi drógust saman um 25 milljarða króna eða 9% milli áranna 2015 og 2016. Tekjur lækkuðu hlutfallslega mest hjá sjávarútvegsfyrirtækjum með mestu aflaheimildirnar.
  • EBITDA sjávarútvegsfyrirtækja lækkaði um 22% milli áranna 2015 og 2016. Sjávarútvegsfyrirtæki náðu þó að einhverju marki að vega upp neikvæða tekjuþróun með lækkun kostnaðar.
  • Skuldastaða greinarinnar í heild þróaðist með jákvæðum hætti árið 2016 að því leiti að heildarskuldir lækkuðu og eiginfjárhlutfall hækkaði. Greiðslugeta versnaði hins vegar heldur þar sem skuldir sem hlutfall af EBITDA lækkuðu.
  • Með hliðsjón af hreyfingu helstu hagstærða og útflutningsverðmætis sjávarafurða eru allar líkur á því að afkoma versni nokkuð á rekstrarárinu 2017. Þetta má m.a. rekja til óhagstæðrar þróunar ytri hagstærða. Verðlag sjávarafurða hefur lækkað verulega í íslenskum krónum og launavísitala hækkað töluvert. Lækkun olíuverðs hefur haft nokkuð jákvæð áhrif á afkomu ársins 2016, en á árinu 2017 hefur olíuverð tekið að hækka að nýju.
  • Deloitte telur að EBITDA sjávarútvegsins geti árið 2017 hafa lækkað um 20-37% frá fyrra ári og nemi á bilinu 37 til 45 milljarðar króna. Gangi það eftir mun EBITDA hafa lækkað um 42-59% frá 2015 til 2017.

Við þetta mætti bæta – að hafi hugmyndin um veiðigjald sem væri nálægt 10% af framlegð – má vel rökstyðja að hún sé komin vel yfir 50% nú – það rekur engin fyrirtæki til lengdar sem þarf að greiða slíkan skerf í skatt – það mætti allt eins kalla þjóðnýtingu.

Útgerðarfyrirtæki í NV kjördæmi eru mörg og misstór.  Ég segi það hér – staða þeirra er mjög alvarleg.  Afleiðingin af þessari stöðu getur orðið mjög alvarleg.    Það mætti vel kalla það hamfarir af mannavöldum.

Ég var mjög áfram um að landshlutasamtök sveitafélaga í NV kjördæmi myndu gera sjálfstæða greiningu á stöðu mála í kjördæminu sérstaklega.  Að því er nú unnið.

Eftir páskahlé þingsins – þá verður að fara fram umræða um þessa alvarlegu stöðu.

Það er ekki í boði að grípa ekki til aðgerða.  Ég get ekki hugsað til þess að ekki verði mætt ákalli um skilning, um aðgerðir til að bregðast við.  Verði það ekki getum við ekki ímyndað okkur hvernig hlutir þróast.  Allt frá upptöku þess kerfis sem við búum við – eigum við eftir að sjá mestu til flutninga aflaheimilda – með tilheyrandi röskun fyrir byggðir landsins.

Það er ekki í boði að gera ekki neitt.

Höfundur er;

-Haraldur Benediktsson 1. þm. NV kjördæmis.

 

 

DEILA