Gáfu yngstu börnunum gönguskíði

Skíðakrakkarnir á Flateyri ásamt aðstandendum Grettis

Það var mikið um dýrðir og gleðin skein af hverju andliti þegar 5 til 9 ára börnin á Flateyri fengu að prófa gönguskíði í fyrsta skiptið. Rútufyrirtækið Grayline, sem er í eigu brottfluttra Flateyringa, sjávarútvegsfyrirtækið Hlunnar á Flateyri og Orkubú Vestfjarðar veittu íþróttafélaginu Gretti styrki til að kaupa skíðin og ætlunin er að nota þau bæði í íþróttakennslu í grunnskólanum sem og á skipulögðum æfingum HSV og Grettis í Önundarfirði.

Ízabella 4 ára frá Flateyri skemmti sér vel í Neðri-Breiðadal

Börnin fengu að prófa skíðin í Breiðadal þar sem ábúendur höfðu gert skíðaspor og seldu einnig dásemdar vöfflur og kakó á Kaffi Sól í tilefni dagsins. Það er mjög þakkarvert þegar brottfluttir og búandi Vestfirðingar styrkja svona við íþróttastarf barna og áhugi þeirra á íþróttinni hefur aukist mjög mikið eftir að hafa fengið tækifæri til að prófa. Aðstaða til gönguskíðaiðkunnar er góð í Neðri-Breiðadal í Önundarfirði og það er von aðstandenda Grettis að sem flestir fái tækifæri til að renna sér þar, nú eða bara smakka kræsingarnar hjá vertunum á kaffihúsinu.

Þau Guðrún Pálsdóttir og Einar Guðbjartsson sem eiga fyrirtækið Hlunna á Flateyri gáfu styrk til kaupa á gönguskíðum.
Foreldrar gæddu sér á vöfflum og kaffi á meðan börnin prófuðu gönguskíðin

sabjorg@gmail.com

 

 

DEILA