Aukin áhætta vegna norsks eldislax

Ekkert líkan er til um áhrif erfðablöndunar norsks eldislax, sem notaður er á Íslandi í sjókvíaeldi, við íslenska villilaxastofna. Að sögn doktors Kevin Glover, yfirmanns rannsókna á Hafrannsóknastofnuninni í Noregi og prófessors við háskólann í Bergen, hefur notkun á norskum  eldislaxi í laxeldi á Íslandi í för með sér auka áhættu vegna viðbótar erfðafræðilegra þátta sem ekki er tekið tillit til í því líkani, sem sagt var frá í íslenskum fjölmiðlum í síðustu viku.

 

Icelandic Wildlife Fund hafði samband við Glover í kjölfar fréttanna í íslensku miðlunum, en þær voru byggðar á viðtali við Glover í norska viðskiptablaðinu Dagens Næringsliv. Í endursögn íslensku fjölmiðlanna kom fram að ef hlutfall eldislax væri 5 til 10% í ám hefði það hverfandi áhrif á villtan staðbundinn laxastofn samkvæmt líkaninu. Var sú tala sett í samhengi við aðstæður hér á landi og fullyrti meðal annars vestfirski miðillinn bb.is í fyrirsögn að „Laxeldi í Ísafjarðardjúpi myndi ekki skaða villtu stofnana“.

Rétt er að minna á að norskur eldislax er aðskotadýr í íslenskri náttúru. Þegar eldislax af norskum stofni var fyrst fluttur til Íslands var það gert með þeim skilyrðum að hann yrði eingöngu notaður í landeldi og færi aldrei í sjó við Ísland. Það var mikið ógæfuspor þegar fallið var frá því skilyrði árið 2003.

Glover staðfesti í tölvupóstsamskiptum við Icelandic Wildlife Fund að fréttin um líkanið í Dagens Næringsliv, sem íslensku fjölmiðlarnir vitnuðu til, ætti ekki við um aðstæður á Íslandi. Glover sendi Icelandic Wildlife Fund þessa yfirlýsingu: „Eldi á norskum ræktuðum laxi á Íslandi felur í sér auka áhættu vegna viðbótar erfðafræðilegra þátta sem ekki er tekið tillit til í líkaninu. Erfitt er að gera líkan sem metur þessi áhrif þar sem við höfum engin gögn varðandi virkan mismun milli þessara mismunandi svæða.“*

Doktor Glover kom til Íslands í febrúar og hélt fyrirlestur hjá Erfðanefnd landbúnaðarins. Varaði hann þar eindregið við að Ísland færi sömu leið í eldismálum og Noregur vegna þess hversu villtir norskir stofnar hafa skaðast af erfðablöndun við eldislax. Fram kom í fyrirlestri hans að eldislax hefði blandast 2/3 af villilaxastofnum í Noregi.

Líkan doktors Glovers og félaga snýst eingöngu um norskan eldislax og norskan villilax. Ekkert líkan er til um áhrif erfðablöndunar norsks eldislax við íslenska villilaxastofna. Icelandic Wildlife Fund hafnar því alfarið að sú tilraun fari fram í íslenskri náttúru.

Fyrir hönd Icelandic Wildlife Fund,

Ingólfur Ásgeirsson og Jón Kaldal

DEILA