Vísa frétt Stundarinnar á bug

Sjókvíar í Tálknafirði.

Arnarlax hf. á Bíldudal vísar á bug frétt Stundarinnar frá því í morgun um að ein af sjókvíum fyrirtækisins í Tálknafirði hafi sokkið. Í tilkynningu frá Arnarlaxi segir að við reglulegt eftirlit í síðustu viku hafi komið í ljós bilun í búnaði á einni kví og í ljósi óhagstæðrar veðurspár var strax tekin ákvörðun um að dæla öllum fiski úr kvínni. Í tilkynningunni segir að bilunin hafi falist í að einn af flothringjum kvíarinnar hafi brotnað og Arnarlax tekur fram að engin net hafi rofnað og að aldrei hafi verið hætta á að fiskur slyppi. „Fréttir um að kvíin hafi sokkið eru rangar og kvíin hefur  nú verið tæmd en flýtur nú sem fyrr. Aldrei var ástæða til að ætla að kvíin myndi sökkva,“ segir í tilkynningunni.

Um 500 tonn voru í kvínni og ljóst að eitthvað af fiski drapst við að vera dælt í nýja kví en óljóst á þessu stigi hvað tjónið var mikið.

Bæði Matvælastofnun og Fiskistofu var tilkynnt um atvikið og stofnunum haldið upplýstum um stöðu mála.

DEILA