Síðasta lægðin í bili

Nú í morgunsárið er 953 mb lægð djúpt suðvestur í hafi á hraðferð til norðurs. Þrátt fyrir þrýstingur sé býsna lágur í miðju lægðarinnar, á hún enn eftir að dýpka og miðjuþrýstingi hennar er spáð rétt undir 940 mb undir kvöld og lægðin þá komin á Grænlandshaf.

Í hugleiðingum veðurfræðings segir að seinnipartinn í dag er útlit fyrir að lægðin verði orðin mjög myndarleg með suðaustan stormi á öllu landinu. Með fylgir úrkoma, sums staðar sést slydda eða snjókoma í fyrstu, en megnið af úrkomunni sem fellur í dag verður rigning og verður hún í talsverðu magni sunnan- og vestanlands. Með lægðinni fylgir hlýrra loft og í kvöld er útlit fyrir 5 til 10 stiga hita um allt land.

Á morgun er útlit fyrir sunnanátt, strekkingur eða allhvass vindur með skúrum og síðar éljum og kólnar smám saman. Stormurinn í dag er sá síðasti í kortunum í bili, útlit er fyrir að hæðir ráði ríkjum við landið í næstu viku og að þá verði veður tiltölulega rólegt og lítið um úrkomu.

DEILA