Segir laxeldi mikilvægan atvinnuveg og komið til að vera

Laxeldið er komið til að vera og er mikilvægur atvinnuvegur fyrir Vestfirðinga og Austfirðinga. Þetta segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra í helgarviðtali Fréttablaðsins. Hann leggur áherslu á að Íslendingar þurfi að passa mjög vel upp á villta laxastofna. „Þetta er spurning um langtímaáhrif á erfðafræði íslenska laxins og við megum ekki gleyma að laxveiði er gríðarlega efnahagslega mikilvæg víða um land. Þarna þurfum við að vera með kerfi sem tryggir til framtíðar að sem allra, allra minnst og helst engin erfðablöndun verði,“ segir Guðmundur Ingi í viðtalinu en tekur fram að fiskeldi heyrir ekki undir umhverfisráðuneytið.

Hann er einnig spurður út í veglagningu í Teigsskógi. Guðmundur Ingi segir ljóst að veglínan sem Vegagerðin mælir með valdi meiri umhverfisáhrifum en svokölluð jarðgangaleið. „Það er niðurstaða Skipulagsstofnunar, byggt á umhverfismatinu, að umhverfisáhrifin af jarðgangaleiðinni séu minnst. Þau eru samt mikil. Það má kannski segja að í stöðunni sé enginn frábær kostur,“ segir Guðmundur Ingi og segir mjög mikilvægt að niðurstaða náist í þessu máli.

Staða Teigsskógsþrætunnar er þannig í dag að sveitarstjórn Reykhólahrepps er með breytingar á aðalskipulagi í vinnslu og þarf að taka afstöðu til þess hvor veglínan fari inn á skipulagið. Niðurstaða Reykhólahrepps á að liggja fyrir á allra næstu vikum. „Ég held það þurfi bara að bíða eftir því. Út frá umhverfis- og náttúruverndarsjónarmiðum skiptir mestu máli að horfa til vistkerfa sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum, svo sem sjávarfitja og leira. Og hið sama gildir um birkiskógana,“ segir Guðmundur Ingi.

DEILA