Hópur ferðamanna fær bætur vegna aflýsts Ísafjarðarflugs

Flugvöllurinn á Ísafirði.

Samgöngustofa hefur gert Air Iceland Connect að greiða hópi erlendra ferðamanna 250 evrur, rúmar 31 þúsund íslenskar krónur, vegna ferðar sem þeir áttu að fara í frá Reykjavík til Ísafjarðar. Fyrst þegar farþegarnir komu á Reykjavíkurflugvöll og ætluðu að innrita sig í flugið fengu þeir að vita að fluginu hafi verið aflýst fyrir 27 dögum vegna viðhaldsvandamála. Frá þessu er greint á vef RÚV.

Evrópska neytendaaðstoðin rak málið fyrir farþegana gegn Air Iceland Connect. Í kvörtun stofnunarinnar til Samgöngustofu kemur fram að farþegarnir hafi átt bókað ferðalag til Íslands með ferðaskrifstofunni Iceland ProTravel í júní fyrir tæpum tveimur árum.

Ferðaskrifstofan hafði fengið tilkynningu um að fluginu væri aflýst en láðist að koma þeim upplýsingum áfram til farþeganna. Flugfélagið hafnaði að greiða farþegunum bætur þar sem ferðaskrifstofan hafði bókað flugmiðana og flugfélagið hafði ekki upplýsingar um farþegana þegar fluginu var aflýst, 27 dögum fyrir brottför. Flugfélagið vísaði ábyrgðinni alfarið til ferðaskrifstofunnar.

Samgöngustofa féllst á rök Evrópsku neytendastofunnar þar sem vísað er dómavísaði í Þýskalandi þar sem fram kemur að flugfélög bera ábyrgð á tilkynningum til farþega. Engu máli skipti þótt ferðir væru bókaðar í gegnum ferðaskrifstofu. Air Iceland Connect hefði hæglega getað óskað eftir upplýsingum um farþega hjá ferðaskrifstofunni og tilkynnt þeim um aflýsinguna.

DEILA