Framkvæmdir á Dynjandisheiði í fyrsta lagi árið 2020

Dynjandisheiði.

Framkvæmdir við nýjan veg um Dynjandisheiði hefjast í fyrsta lagi sumarið 2020. Þá um haustið verða Dýrafjarðargöng tekin í gagnið samkvæmt verkáætlun.

Í svari G. Péturs Matthíassonar, upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar, við fyrirspurn bb.is segir að framkvæmdin er nú í umhverfismatsferli. Gert er ráð fyrir að tillaga að matsáætlun verði send til Skipulagsstofnunar í vor og að endanleg matsskýrsla verði staðfest fyrir vorið 2019. Í kjölfarið þarf að ljúka við hönnun, breytingar á skipulagi og annað slíkt.

Í svarinu segir að líklegt er að verkið verði tilbúið til útboðs veturinn 2019/2020 með það að markmiði að framkvæmdir gætu hafist sumarið 2020, að því gefnu að verkefnið sé fjármagnað sem liggur ekki fyrir.

Um fjármögnun verksins verður meira vitað í haust þegar ný samgönguáætlun verður lögð fyrir Alþingi.

Í drögum að tillögu að matsáætlun sem Vegagerðin sendi frá sér síðasta sumar segir að framkvæmdin taki að lágmarki þrjú ár og önnur þrjú ár að gera Bíldudalsveg sem þó mætti vinna samtímis.

DEILA