Í dag er bóndadagur, fyrsti dagur þorramánaðar og markar upphaf þorrablótavertíðarinnar. Nafnið bóndadagur þekkist frá miðri 19. öld á þessum degi áttu húsmæður – og eiga enn – að gera vel við bónda sína í mat.
Í þjóðsögum Jóns Árnasonar segir að húsbændur áttu að fagna þorra með því að fara fyrstir á fætur fyrsta dag í þorra. Þeir áttu að fara út á skyrtunni einni og vera bæði berlæraðir og berfættir en fara í aðra buxnaskálmina og láta hina lafa eða draga hana á eftir sér. Þeir áttu að ljúka upp bænum, hoppa á öðrum fæti í kringum allan bæinn og bjóða þorra velkominn til húsa. Þorra var síðan fagnað með því að bjóða til veislu.