Fólki fjölgar á Vestfjörðum

Á síðasta ári fjölgaði Vestfirðingum um 110 manns, sem gerir 1,6 prósent fjölgun. Við upphaf síðasta árs voru íbúar á Vestfjörðum 6.885 talsins og við upphaf þessa árs bjuggu 6.995 á kjálkanum. Þetta kemur fram í nýjum mannfjöldatölum Hagstofu Íslands.

Bolvíkingum fjölgaði hlutfallslega mest, eða um 4,3 prósent, fóru 910 íbúum í 950. Íbúum Ísafjarðarbæjar fjölgaði um 100 manns á síðasta ári, fóru 3.610 í 3.710, sem er fjölgun um 2,8 prósent.

Í Vesturbyggð fækkaði íbúum um 10 manns, fór úr 1.030 íbúum í 1.020 og í Strandabyggð fækkaði um 20 manns og íbúafjöldinn í upphafi árs var 450.

Í öðrum sveitarfélögum á Vestfjörðum stóð íbúafjöldi í stað.

Í samantekt Hagstofunnar eru allar tölur námundaðar að næsta tug ef mannfjöldinn er meiri en 50 en að næsta hálfa tug ef talan er lægri.

 

Fjölgunin var hlutfallslega mest í Bolungarvík, eða um 4,3 prósent.

DEILA