Atvinnusköpun og Álftafjarðargöng efst í huga Súðvíkinga

Atvinnusköpun og uppbygging Álftafjarðarganga eru efst í huga íbúa Súðavíkurhrepps. Á íbúaþingi Súðavíkurhrepps í haust fengu atvinnumálin og jarðgöngin afgerandi mest vægi í forgangsröðun þátttakenda á þinginu. Í samantektarskýrslu íbúaþingsins kemur fram að rætt var um ýmsa möguleika til atvinnusköpunar og metnir kostir og gallar við bæjarútgerð, kalkþörungavinnslu og laxeldi. Einnig var rætt um mikilvægi þess að til verði störf sem krefjast menntunar. Súðvíkingar horfa  til ferðaþjónustu sem sóknarfæris.

Biðstaða er í laxeldismálum við Djúp en á þinginu kom fram jákvæðni gagnvart því að reyna að nýta þau tækifæri sem kunna að bjóðast í tengslum við sjókvíaeldi. Mikilvægt sé þó að fara varlega og gæta að neikvæðum áhrifum. Rætt var um jákvæð og neikvæð áhrif vegna mögulegrar kalkþörungaverksmiðju í Súðavík. Ýmis sjónarmið komu fram en samhljómur var um að huga verði að mótvægisaðgerðum, ef af verkefninu verður.

Á þinginu var rætt um staðsetningu Álftafjarðarganga og nauðsyn þess að vegurinn um Súðavíkurhlíð og Kirkjubólshlíð verði lagður af. Hjólin eru eitthvað farin að snúast í málefnum Álftafjarðarganga því fyrir rúmu ári veitti Alþingi fé til rannsókna á gangastæði.

Í samantektarskýrslunni er vitnað í nemendur í unglingadeild Grunnskólans í Súðavík og hvað göngin þýða í þeirra huga: „Mörg okkar eiga vini á Ísafirði og við stundum íþróttir þar. Það getur verið erfitt að fara hér á milli í vondum veðrum og stundum komumst við ekki neitt. Því er nauðsynlegt að fá göng hér á milli.“

DEILA