Afborganir gætu numið 50-80 milljónum króna á ári

Bókun minnihlutans í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar um uppgjör bæjarins við lífeyrissjóðinn Brú var samþykkt samhljóða af bæjarfulltrúum. Í bókuninni er gerð athugasemd við að ekki hafi verið gert ráð fyrir uppgjöri við Brú í fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árið 2018.

Bærinn þarf að taka 560 milljóna kr. lán vegna uppgjörsins en tryggingafræðileg staða lífeyrissjóðsins kallar á að fjárhagurinn verði réttur af með innspýtingu sveitarfélaganna.

Í bókunninni segir: „Ljóst má vera að þetta uppgjör hafi ekki átt að koma á óvart, þó að endanleg upphæð hafi ekki legið fyrir hefur samkomulag þetta legið fyrir um langt skeið. Það að gera ekki ráð fyrir rúmum hálfum milljarði í útgjöld setur auðvitað fjárhagsstöðu bæjarins í uppnám, enda aukast skuldir sem þessu nemur, jafnvel þó að það sé ekki reiknað inn í skuldaviðmið bæjarins er þetta engu að síður skuld sem þarf að greiða. Afborganir og vextir af þessari upphæð gætu verið um 50-80 m.kr. á ári.“

DEILA