Tíu ára gamalt framleiðslumet fallið

Arnarlax vinnur nú að því í samstarfi við annað fyrirtæki og stofnanir að skapa verðmæti úr blóði eldisfiska. Myndin tengist fréttinni ekki.

Tíu ára gamalt framleiðslumet íslenskra fiskeldisfyrirtækja féll í fyrra, en 15.201 tonn voru framleidd í fiskeldi á Íslandi árið 2016. Það er aðeins um 100 tonnum undir spám Landssambands fiskeldisstöðva fyrir árið. Frá er greint í Fiskifréttum og vitnað í skýrslu Íslandsbanka; Íslenskur sjávarútvegur 2017.

Mest var framleitt af laxi eða um 8.420 tonn sem er aukning um 5.160 tonn á milli ára. Af bleikju voru framleidd 4.084 tonn sem er 147 tonnum meira en árið á undan. 2.138 tonn voru framleidd af regnbogasilungi og um 59 tonn af þorski. Á yfirstandandi ári er gert ráð fyrir að framleiðsla á eldisfiski nemi um 20.801 tonnum og 30.475 tonnum á árinu 2018.

Útflutningsverðmæti eldisfisks árið 2016 var tæpir tíu milljarðar króna samanborið við 7,1 milljarð árið 2015. Verðmæti eldislax nam 5.5 milljörðum á árinu 2016 og jókst um 2.5 milljarða frá fyrra ári. Verðmæti silungs – bleikju og regnbogasilungs – var 3.5 milljarðar á árinu og lækkaði um 57 milljónir frá árinu 2015.

smari

DEILA