Lögreglan hefur fundið munina sem var stolið úr Ísafjarðarkirkju úr gær. Bíræfnir þjófar létu greipar sópa í fatahengi kirkjunnar á meðan á jólatónleikum Heru Bjarkar, Jógvan Hansen og Halldórs Smárasonar stóð. Tónleikagestir söknuðu farsíma, peningaveskja og greiðslukorta og þess háttar. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni fannst þýfið á „mjög góðum felustað í bænum,“ án þess að lögreglan vilji fara nánar út í staðsetningu felustaðarins.
Samkvæmt heimildum bb.is var þýfið í póstkassa á pósthúsinu á Ísafirði og svo vel vill til að myndavélar vakta póstkassana sem kemur lögreglunni án vafa að góðum notum við frekari rannsókn málsins.
Tveir karlmenn voru handteknir í gærkvöldi grunaðir um þjófnaðinn og eru þeir í haldi lögreglu.
smari@bb.is