Grásleppuveiðar missa sjálfbærnivottun

Marine Stewardship Council (MSC) hefur afturkallað vottun fyrir grásleppuveiðar frá og með 4. janúar 2018.  Samkvæmt niðurstöðum frá Vottunarstofunni Tún hefur komið í ljós að meðafli við veiðarnar er umfram viðmiðunarmörk í fjórum tegundum.  Að mati Túns ógna veiðarnar þannig tilvist þeirra.

Frá þessu er sagt á heimasíðu Landssambands smábátaeigenda.

Tegundirnar eru landselur, útselur, dílaskarfur og teista.  Vottunarstofan byggir niðurstöður sínar á útreikningum Hafrannsóknastofnunar frá upplýsingum úr afladagbókum og athugunum veiðieftirlitsmanna.  Þeir jafngilda að meðafli við grásleppuveiðar á vertíðinni 2017 hafi verið 16% af útselastofninum, 10% af stofni landsels, 17% af dílaskarfi og 20% af þeim fjölda teista sem stofninn telur, að því er kemur fram í frétt LS sem vinnur nú að yfirferð á skýrslunni og gögnum henni tengdri til að hægt verði að leggja mat á hvað hægt er að gera í þeirri stöðu sem upp er komin.  Að svo stöddu er ekki hægt að leggja mat á hvaða áhrif upplýsingarnar hafa á grásleppuveiðar hér við land.

Vottunarstofan Tún annast vottun og eftirlit með sjálfbærum sjávarnytjum samkvæmt viðmiðunarreglum Marine Stewardship Council (MSC).

 

DEILA