Because of the tourists

Jónas Guðmundsson gerði á dögunum að umtalsefni erlendar merkingar á Nettó en verslunin er merkt sem „discount-supermarket“. Fyrirsögn greinarinnar sem birtist á bb.is er „Samkaup – Why English“.  Jónas er ósáttur við að ekki skuli íslenskum áletrunum bætt við og spyr hvað valdi.

Nú hefur Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa svarað Jónasi og óskar eftir birtingu á sama vettvangi.

 

Vegna aðsendrar greinar sem birtist hér á vefnum í síðustu viku frá Jónasi Guðmundssyni íbúa á Ísafirði er það mér bæði ljúft og skylt að svara.

Fyrst af öllu vil ég þakka Jónasi fyrir greinina. Það skiptir miklu máli fyrir hvert samfélag að íbúar láti sig málefni þess varða. Það er líka afar mikilvægt að taka tillit til athugasemda íbúa ekki síst réttmætra athugasemda, eins og í tilfelli Jónasar. Það er óheppilegt að lágvöruverðsverslunin Nettó sé einungis merkt sérstaklega á ensku.

Við hjá Samkaupum getum ekki svarað fyrir önnur fyrirtæki. En við höfum í það minnsta kappkostað að gera eins vel við alla okkar viðskiptavini og hægt er. Kúnnahópurinn okkar um land allt er afar fjölbreyttur og fer sífellt stækkandi. Ekki síst á Ísafirði. Því fögnum við ákaft.

Við leggjum mikla áherslu á að vekja athygli á þjónustunni sem við höfum uppá að bjóða; með kraftmiklum hætti í sjónvarpi, útvarpi, á neti og í bæklingum þar sem íslenskan er í hávegum höfð. Við finnum líka að Íslendingar þekkja verslanir okkar gríðarlega vel.

Eins og Jónas bendir réttilega á eru útveggir verslunar okkar á Ísafirði merktir Nettó- Discount Supermarket.  Og ástæðan er einföld, eins og hann sjálfur bendir á: Fjölgun erlendra gesta á svæðinu.

Yfir tvær milljónir ferðamanna heimsóttu landið okkar í fyrra. Eðli málsins samkvæmt eru þeir misgóðir í íslensku og komast líklega að mestu leyti hjá því að heyra eða sjá auglýsingarnar okkar. Og ef þeir heyra þær eða sjá eiga þeir sennilega oft erfitt með að skilja þær. Þess utan stoppa ferðmenn alla jafna aðeins stutta stund á hverjum stað og hafa þ.a.l. sjaldnast hugmynd um hvað lágvöruverðsverslunin Nettó er.

Því brugðum við á það ráð, til að upplýsa erlendu ferðamennina, að merkja verslunina, vitandi að Ísfirðingar þekktu Nettó ágætlega.

Við hjá Samkaupum viljum öðru fremur starfa í sátt og samlyndi við heimamenn á hverjum stað. Ég vil því enn og aftur þakka Jónasi fyrir greinina og í kjölfarið munum við taka málið til skoðunar hjá okkur.

 Með vinsemd og virðingu,  

Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa.

bryndis@bb.is

DEILA