Segir niðurskurðinn aðför að störfum háskólamenntaðra

Bæjarráð Vesturbyggðar mótmælir harðlega fyrirhuguðum niðurskurði á framlögum til Náttúrustofu Vestfjarða.Í  fjárlagafrumvarpi sem var lagt fram í haust áður en Alþingi var slitið er lagt til að skera niður fjárframlög til stofunnar um 10,1 milljón króna sem eru um þriðjungur af framlagi ríkisins til stofunnar.

Í bókun bæjarráðs segir að þessi fyrirhugaða skerðing er algjörlega á skjön við þá stefnu sem boðuð var í Vestfjarðaskýrslunni sem og með fyrirhugaðri stofnun Vestfjarðastofu að byggja upp rannsóknaraðstöðu og fjölga háskólamenntuðum starfsmönnum á landsbyggðinni.

„Þessi fyrirhugaði niðurskurður kemur sérstaklega hart niður á sunnanverðum Vestfjörðum og mun hafa áhrif á uppbyggingu stuðningsgreina við vaxandi fiskeldi í sjókvíum í landshlutanum. Bæjarráð Vesturbyggð skorar á þingmenn kjördæmisins að hrinda þessari aðför að störfum háskólamenntaðra starfsmanna á landsbyggðinni og felur bæjarstjóra að fylgja málinu eftir.“

smari@bb.is

DEILA