Mótmælir niðurskurði harðlega

Starfsmenn Náttúrustofunnar við rannsóknir á Látrabjargi.

Bæjarráð Bolungarvíkurkaupstaðar mótmælir harðlega fyrirhugum niðurskurði á framlögum til Náttúrustofu Vestfjarða sem fram kemur í fjárlagafrumvarpinu sem lagt var fram á Alþingi í haust. Í frumvarpi Benedikts Jóhannessonar fráfarandi fjármálaráðherra er lagður til 10,1 milljóna kr. niðurskurður á framlagi ríkisins til stofunnar. Það er rúmlega þriðjungs niðurskurður á framlagi ríkisins. Forstöðumaður Náttúrustofunnar hefur sagt að gangi niðurskurðurinn eftir gæti eitt starf við stofunna verið í hættu. Ekki er ljóst hver verða afdrif fjárlagafrumvarpsins þegar ný ríkisstjórn tekur við völdum en í ályktun bæjarráðs Bolungarvíkurkaupstaðar segir að verði niðurskurðurinn að veruleika sé það aðför að Náttúrustofunni og störfum háskólamenntaðra á Vestfjörðum.

„Nær hefði verið að standa við gefin fyrirheit um fjármagn til gróðurkortagerða á Vestfjörðum eins og áður hafði verið samþykkt. Eðlileg þróun væri að starfsemi stofnunarinnar yrði efld til að búa í haginn fyrir fyrirhugaða uppbyggingu fiskeldis á Vestfjörðum. Afar mikilvægt er að hér á svæðinu byggist upp þekking á rannsóknum í fiskeldi til að styrkja innviði greinarinnar og efla þekkingu á lífríki Vestfjarða,“ segir í ályktuninni.

Bæjarráð skorar á þingmenn kjördæmisins, umhverfisráðherra og Alþingi til að beita sér fyrir því að hætt verði við fyrirhugaðan niðurskurð og þvert á móti verði framlög til Náttúrustofunnar aukin.

smari@bb.is

DEILA