Minningar úr Héraðsskólum

Þjóðminjasafn Íslands mun á næstunni senda út spurningaskrá um héraðsskóla og aðra heimavistarskóla til sveita á unglingastigi, en fyrirhugað er að safna upplýsingum um daglegt líf og athafnir í þessum skólum. Söfnunin byggir eingöngu á frásögnum fyrrverandi nemenda og er því fyrst og fremst verið leita eftir minningum fólks.

Spurningaskráin er hluti af þjóðháttasöfnun Þjóðminjasafns Íslands sem staðið hefur óslitið síðan 1960. Spurt er um hefðir, félagslíf, ýmisleg samskipti við aðra nemendur og starfsfólk skólans, kennslu, nám, frístundir, tengsl við fjölskyldu og heimili o.fl.

Þjóðminjasafnið leitar eftir heimildarmönnum sem vilja svara þessari spurningaskrá, bæði úr héraðsskólum og síðast en ekki síst úr öðrum heimavistarskólum. Þeir sem taka vilja þátt eru vinsamlegast beðnir um að senda netfang sitt á agust@thjodminjasafn.is. Farið verður með netföngin sem trúnaðarmál.

Afrakstur söfnunarinnar verður gerður öllum aðgengilegur í menningarsögulega gagnagrunninum Sarpi eða sarpur.is.

Fyrsti skólinn þar sem nemendur dvöldu í heimavist var á Núpi í Dýrafirði árið 1907 og má ætla að margir geti deilt minningum sínum frá dvöl sinni í skólanum. Jón Gnarr fyrrverandi borgarstjóri gaf út bókina Útlaginn og fjallar hún um veru hans á Núpi.

bryndis@bb.is

DEILA