„Minn tími mun koma“

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG í Norðvesturkjördæmi, styður ríkisstjórnarsamstarfið og ráðherralista VG sem Katrín Jakobsdóttir formaður VG lagði fram á þingflokksfundi í morgun. Katrín kom mörgum á óvart með því að leita utan þingflokksins og leggja til Guðmund Inga Guðbrandsson, framkvæmdastjóra Landverndar, sem umhverfisráðherra. Margir höfðu spáð því að Lilja Rafney settist á ráðherrastól.

„Við fáum þarna góðan einstakling inn í umhverfisráðuneytið. Ég hefði algerlega við tilbúin að taka að mér ráðuneyti, líkt og fleiri í þingflokknum. Það var hins vegar niðurstaðan að þetta væri gott fyrir okkur sem heild að breikka hópinn og fá þarna inn mann sem hefur starfað lengi með Landvernd og þekkir þennan geira vel. Þetta er öflugur liðsauki,“ segir Lilja Rafney  í samtali við Vísi.

Hún segist hvorki vera svekkt né sár með að fá ekki ráðherraembætti. „Ég tek við þeim verkefnum sem koma hverju sinni. Minn tími mun koma svo ég endurtaki orð góðrar konu. Það veit enginn hvað verður gert síðar á kjörtímabilinu í þessum efnum.“

smari@bb.is

DEILA