Menntskælingar fengu fræðslu um umferðaröryggi

Í síðustu viku héldu tveir liðsmenn lögreglunnar á Vestfjörðum, þeir Haukur Árni Hermannsson og Þórir Guðmundsson, fyrirlestur fyrir hluta nemenda í Menntaskólanum á Ísafirði. Fyrirlesturinn var fluttur innan lífsleiknikennslunnar sem fram fer í skólanum.

Þeir félagar fóru yfir mikilvæg atriði er varða umferðaröryggi, ekki síst þeirra sem teljast ungir og lítt reyndir ökumenn. Meðal þess sem komið var inn á í fyrirlestrinum voru ýmsar truflandi athafnir s.s. notkun snjallsíma við akstur, ástand ökumanna og fl. sem rekja má mörg slys til. Það er ekki af tilefnislausu að þessi mál voru rædd við menntskælinga. Í nýlegri rannsókn Sjóvár kom í ljós að 83% fram­halds­skóla­nema nota snjallsíma við akstur. Það eru yngstu öku­menn­irnir sem nota sím­ann minnst við akstur en þeir eldri nota hann tölu­vert meira. Þannig segj­ast 27% 17 ára nem­enda aldrei nota snjallsíma undir stýri en það hlut­fall er aðeins 8% hjá þeim 20 ára og eldri. Um afar mark­tækar niður­stöður var að ræða þar sem 71% fram­halds­skóla­nema tók þátt í rann­sókn­inni en aðeins var unnið með svör frá þeim nem­endum sem voru með bíl­próf þegar hún var gerð.

smari@bb.is

DEILA