Nú er ljóst að systurskipin Breki og Páll Pálsson koma ekki til landsins fyrr en á nýju ári – en ekki núna fyrir áramótin eins og að var stefnt. Um þetta er fjallað á heimasíðu Vinnslustöðvarinnar, eiganda Breka VE. Þar segir að fulltrúar Samgöngustofu fóru til Kína og tóku skipin út eins og lög gera ráð fyrir og voru í kínversku skipasmíðastöðinni í um viku við úttekt á togurunum tveimur.
Fá og tiltölulega smá verk standa enn út af. Alveg í lokin verða skipin tekin í slipp á nýjan leik til að ljúka við að mála þau áður en þeim verður siglt heim á leið.
Tilkynnt var um smíði skipanna í maí 2014 en smíði togarann hefur dregist umtalsvert.
smari@bb.is