Einelti og kynferðislegt ofbeldi á vinnustað er ólíðandi og verður að uppræta

Miðstjórn Alþýðusamband Íslands ályktaði í vikunni um einelti og kynferðislegt ofbeldi á vinnustað. Sambandið fagnar umræðu að undanförnu þar sem mikill fjöldi kvenna hefur stigið fram undir yfirskriftinni #metoo og mótmælt kynferðislegu áreiti og ofbeldi í öllum myndum og á öllum sviðum samfélagsins. Þetta er svartur blettur á samfélaginu og enn eitt dæmið um kynbundna mismunun sem uppræta ber með öllum tiltækum ráðum.

Ennfremur kemur fram í ályktuninni að verkalýðshreyfingin hafni allri mismunun og órétti á vinnumarkaði. Á því byggi sjálf tilvist hennar. Í því felst að verkalýðshreyfingin hafnar hvers konar mismunun á grundvelli kynferðis, þ.m.t. kynbundnum launamun og einelti og kynferðislegu ofbeldi á vinnustað.

Að lokum hvetur miðstjórnin aðildarsamtök Alþýðusambandsins og verkalýðshreyfinguna alla til að styðja með öllum ráðum einstaklinga sem stíga fram og hafna hvers konar einelti og ofbeldi á vinnustað. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra.

bryndis@bb.is

DEILA