Undanfarnar vikur hafa nokkrir tugir barna æft og leikið í Bolungarvík því þar skal í lok nóvember frumsýna söngleik um hana Matildu, stórskemmtilega stúlku sem Roald Dahl skrifaði inn í tilveruna. Matilda er ekki metin að verðleikum heima hjá sér og í skólanum horfir hún upp á óþolandi óréttlæti. Matilda hlýðir ekki alltaf reglum þegar berjast þarf gegn óréttlætinu.
Það er Halldóra Jónasdóttir sem stendur að sýningunni en hún bæði leikstýrir verkinu og hefur þýtt leiktextann og alla söngtextana. Halldóra stundar nám við kennaradeild Háskóla Íslands og er sýningin hluti af útskriftarverkefni hennar úr grunnnáminu næsta vor. Höfundur sögunnar er eins og áður sagði Roald Dahl en Dennis Kelly samdi söngleikinn með tónlist Tim Minchen.
Söngleikurinn Matilda verður sýndur í Félagsheimili Bolungarvíkur í lok nóvember.