Boðar til fundar um verndaráætlun Hornstrandafriðlandsins

Hornbjarg.

Umhverfisstofnun hvetur landeigendur, hagsmunaaðila og aðra sem hafa áhuga á Hornstrandafriðlandinu að kynna sér gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir Hornstrandafriðlandið. Stofnunin heldur fund um áætlunina á Ísafirði í næstu viku. Markmið fundarins er að upplýsa íbúa, hagsmunaaðila og landeigendur um gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir Hornstrandafriðlandið og kalla eftir skoðunum heimamanna um þau málefni sem fjallað verður um í áætluninni. Stjórnunar- og verndaráætlunin er samkvæmt lögum um náttúruvernd en í þeim segir meðal annars:

„Í stjórnunar- og verndaráætlun skal m.a. fjallað um landnýtingu, landvörslu, vöktun, uppbyggingu, fræðslu og miðlun upplýsinga, verndaraðgerðir og aðgengi ferðamanna, þar á meðal aðgengi fatlaðs fólks. Ef ekki hafa verið settar sérstakar reglur um umferð manna og dvöl á viðkomandi svæði í auglýsingu um friðlýsingu er heimilt að setja slíkar reglur í stjórnunar- og verndaráætlun svo og reglur um önnur atriði.“

Fundurinn verður í Háskólasetrinu á Ísafirði á miðvikudag eftir viku kl. 17-19.

Jafnframt verður fundur fyrir landeigendur haldinn í Reykjavík þann 23. nóvember.

smari@bb.is

DEILA