Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bankans um 0,25 prósentustig. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum sem oft eru nefndir stýrivextir, verða því 4,25 prósent.
Í frétt á vef Seðlabankans um ákvörðun nefndarinnar segir: „Horfur eru á minni hagvexti í ár en í fyrra, m.a. vegna þess að hægt hefur á vexti ferðaþjónustu. Hagvöxtur verður þó áfram töluvert mikill. Vísbendingar eru um að farið sé að draga úr spennu í þjóðarbúskapnum.
Verðbólga hefur hjaðnað nokkuð síðustu tvo mánuði og í september mældist hún 1,4%. Mælikvarðar á undirliggjandi verðbólgu eru enn lægri og hjaðnandi. Gengi krónunnar hefur lítið breyst frá síðasta fundi nefndarinnar, eftir lækkun sl. sumar, og er 4,5% hærra en á sama tíma í fyrra. Mælikvarðar á verðbólguvæntingar eru í nokkuð góðu samræmi við verðbólgumarkmiðið. Gengissveiflur undanfarinna mánaða hafa haft tiltölulega lítil áhrif á verðbólgu og skammvinn áhrif á verðbólguvæntingar.
Verðbólga hefur verið undir 2,5 prósent markmiði Seðlabanka Íslands í um 44 mánuði samfleytt og bankinn hefur því verið að lækka meginvexti sína.
smari@bb.is