Umhverfisvænt fiskeldi á Vestfjörðum

Halla Signý Kristjánsdóttir

Fiskeldi er eitt af stærstu viðfangsefnum stjórnmálamanna í NV kjördæmi þessi misserin og þess vegna finnst mér mikilvægt að þau framboð sem bjóða fram í kjördæminu komi sinni afstöðu til fiskeldis skýrt á framfæri við kjósendur.

Vísindi og regluverk

Kröftugur borgarafundur fyrir tveimur vikum kjarnaði kröfu Vestfirðinga, við viljum byggja upp umhverfisvænt fiskeldi byggt á vísindum með ströngu regluverki. Áherslan á vísindin og regluverkið er mikilvæg, vöxtur og viðgangur eldisins má ekki gerast á kostnað náttúrunnar eða villta laxastofnsins heldur skal ítrustu þekkingu og mótvægisaðgerðum beitt til þess að lágmarka áhrif af eldinu niður fyrir ásættanleg mörk. Þar gegna okkar fagstofnanir lykilhlutverki, Hafrannsóknarstofnun, Fiskistofa og Matvælastofnun en brýnt er að þessar stofnanir hafi þá fjármuni og afl sem þurfa til þess að sinna sínum verkefnum. Eðlilegt er að aukin umsvif þessara stofnana í tengslum við fiskeldi á Vestfjörðum.

Strangar kröfur á Íslandi

Ísland hefur lagt metnað í á undanförnum árum að lágmarka áhrif fiskeldis á umhverfið. Fyrsta skrefið var tekið árið 2004 með því að loka stórum hluta landsins fyrir laxeldi nema á Vestfjörðum og hluta Ausfjörða. Næsta skref var tekið árið 2015 með því að taka upp ströngustu búnaðarstaðla fyrir fiskeldi og þriðja stóra skrefið var tekið núna í ár með því að láta Hafrannsóknarstofnun meta áhættu á mögulegri erfðablöndun. Allt sjóeldi þarf enn fremur að fara í gegnum burðarþolsmat og umhverfismat.

Áhættumat

Hafrannsóknarstofnun Íslands gaf út áhættumat um erfðablöndun núna í júlí sl í fyrsta sinn. Stærstu tíðindin úr því fyrsta mati stofnunarinnar er að möguleg áhætta á erfðablöndun er staðbundin við eldissvæðin. Leyfilegt er að ala allt að 71.000 tonna framleiðslu af frjóum eldislaxi hér við land en Ísafjarðardjúpi lokað. Í þessu fyrsta áhættumati Hafró var ekki miðað við mótvægisaðgerðir í forsendum. Laxeldisfyrirtækin hafa hins vegar ítrekað bent á að hægt sé að fara í mótvægisaðgerðir til að sporna við þessari hættu í lífríkinu og hafa bent á viðurkenndar aðferðir til þess. Enn fremur hefur Hafrannsóknarstofnun bent á mótvægisaðgerðir til þess að lágmarka umhverfisáhrif. Ef slíkum aðgerðum er beitt þarf því eitt ekki að útiloka annað heldur vel hægt að starfrækja umhverfisvæna matvælaframleiðslu í sambýli við nýtingu veiðivatna við Ísafjarðardjúp.

Stefnumótun

Eitt af fyrstu verkefnum nýs þings verður að fara yfir stefnumótunarskýrslu Þorgerðar Katrínar í fiskeldi. Ljóst er að þar eru mörg álitaefni sem þarf að gaumgæfa, til dæmis er varða mótvægisaðgerðir sem eru flestar slegnar útaf borðinu, alþjóðleg uppboð á eldissvæðum sem gera heimaaðilum og minni aðilum erfitt uppdráttar og fleira. Tryggja þarf að eldissvæðin sé áfram ekki hægt að veðsetja eða framselja og hóflegt auðlindagjald þarf að renna til nærsamfélaganna.

Að lokum

Það er ljós að mikil hugur er í Vestfirðingum varðandi laxeldi í sjó enda hefur uppgangur á suðurvæði Vestfjarða sýnt okkur að þessi framleiðsla hefur gríðalega mikið að segja fyrir samfélagið og skilað okkur hundruðum milljóna inn bæði til sveitarfélagana og í þjóðarbúið.

Það er skoðun mín að við verðum að treysa okkar færustu vísindamönnum í þessum efnum og búa til þannig umgjörð að umhverfisvænt laxeldi undir ströngum kröfum byggist upp en sömuleiðis að verndarhendi verði haldið yfir villtu laxastofnunum . Að tryggja slíka umgjörð er fyrst og fremst á hendi stjórnmálanna og heiti ég að ganga fumlaust í það verk fái ég til þess umboð.

Halla Signý Kristjánsdóttir, 2 sæti Framsóknar í NV kjördæmi.

DEILA