Styrkja samgöngur við sunnanverða Vestfirði

Breiðafjarðarferjan Baldur.

Jón Gunnarsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur beint þeim tilmælum til Vegagerðarinnar að ferðum Breiðafjarðarferjunnar Baldurs verði fjölgað í vetur í samræmi við óskir heimamanna á sunnanverðum Vestfjörðum. Jafnframt verður bætt við ferðum í flugáætlun milli Bíldudals og Reykjavíkur frá 1. febrúar á næsta ári. Í frétt á vef ráðuneytisins segir að þetta sé gert til þess að bregðast við miklum vexti í atvinnulífinu á svæðinu og aukinnar þarfar fyrir almenningssamgöngur.

Í fréttinni kemur einnig fram að frá því í lok júlí hafi ráðherra haft til skoðunar að fjölga ferðum yfir Breiðafjörð. Fulltrúar bæjaryfirvalda Vesturbyggðar og atvinnurekenda á sunnanverðum Vestfjörðum áttu síðan fund í september með fulltrúum Vegagerðarinnar og ráðuneytisins þar sem fram komu óskir heimamanna um að styrkja samgöngur við sunnanverða Vestfirði. Var þess óskað að ferðum Baldurs yrði fjölgað. Bætt yrði við morgunferð á föstudögum til að koma fiskafurðum á erlendan markað og bætt við ferð á þriðjudögum. Vegagerðinni hefur verið falið að ganga frá þessum breytingum.

Þá hefur verið óskað eftir að fjölgað verði ferðum í áætlunarflugi milli Bíldudals og Reykjavíkur þannig að morgun- og kvöldferðir verði fimm daga vikunnar í stað einnar ferðar á dag eins og nú er. Er flugfélagið Ernir reiðubúið að bæta við ferðum og hefja þær 1. febrúar næstkomandi. Myndi kostnaður verða kringum 8 milljónir króna fyrir sex mánaða tímabil. Er fjármögnun tryggð með fé sóknaráætlunar Vestfjarða með viðaukasamningi sem gerður er í samræmi við tillögur í Vestfjarðaskýrslu.

smari@bb.is

DEILA