Rauði krossinn leitar að sjálfboðaliðum

Frá neyðarvarnaræfingu Rauða krossins

Rauði krossinn á Norðanverðum Vestfjörðum leitar að fólki sem vill vera á útkallslista vegna neyðarvarna. Námskeið í neyðarvörnum verður haldið fimmtudaginn 5. október í Grunnskólanum á Ísafirði frá kl. 18 til 21. Þeim sem áhuga hafa er einnig boðið að að taka þátt í flugslysaæfingu sem haldin verður á Ísafjarðarflugvelli 7. október. Sjálfboðaliðum er síðan boðið á ókeypis námskeið í skyndihjálp og sálrænum stuðningi í nóvember

Rauði krossinn bregst á hverju ári við fjölda alvarlegra atburða svo sem náttúruhamförum, samgönguslysum, húsbrunum og vinnuslysum.

Rauði krossinn er með hundruði sjálfboðaliða sem eru til taks allan sólarhringinn ef hamfarir eða önnur áföll dynja yfir. Sjálfboðaliðar og starfsfólk eru með mismunandi sérþekkingu, m.a. í stjórnun aðgerða, uppsetningu fjöldahjálparstöðva og í að veita sálrænan stuðning og skyndihjálp þegar mikið liggur við.

Þegar hættuástand skapast vegna náttúruhamfara eða annarra stórslysa fer neyðarvarnarkerfi Rauða krossins í gang. Hlutverk Rauða krossins í almannavörnum ríkisins er fjöldahjálp og félagslegt hjálparstarf sem felst einkum í því að útvega fæði, klæði og húsaskjól og veita upplýsingar til fólks á neyðarstund. Fjöldahjálparstöðvar eru opnaðar þegar koma þarf stórum hópum fólks í skjól, svo sem vegna rýminga hverfa eða landssvæða og í kjölfar náttúruhamfara.​

bryndis@bb.is

DEILA