Leggur til þjóðgarð í stað virkjunar

Sigurður Gísli Pálmason.

„Undirritaður leggur því til á þessum tímamótum að Árneshreppur staldri örlítið við, áður en ákvörðun um framhald varðandi framkvæmdir til undirbúnings Hvalárvirkjunar er tekin,“ segir Sigurður Gísli Pálmason, stjórnarformaður IKEA á Ísland, í athugasemd til hreppsnefndar Árneshrepps vegna fyrirhugaðar Hvalárvirkjunar í Ófeigsfirði.

Sigurður Gísli vill stofna þjóðgarð á Ströndum sem hann sér fyrir sér að gæti orðið burðarás í samfélaginu, ekki aðeins í Árneshreppi heldur á norðanverðum Vestfjörðum.

Í bréfinu segir um m.a. um þjóðgarð á Ströndum:

„Ef vel er haldið á spöðunum myndir hann ekki aðeins skapa störf fyrir umsjónarmenn hans, heldur einnig stuðla að afleiddri atvinnustarfsemi s.s. ferðaþjónustu, uppbyggingu fræðaseturs og annarri nýsköpun.“

Hann segist gera sér grein fyrir að hugmynd um þjóðgarð virðist sem fugl í skógi meðan virkjunin er í hendi. „Mestu skiptir að ef hægt er að gera hugmynd um þjóðgað að veruleika með aðkomu áhugasamra aðila, bæði í atvinnulífi, stjórnsýslu og heimafyrir, þá verði sá möguleiki ekki sleginn af borðinu að óathuguðu máli,“ segir í bréfinu.

Sigurður Gísli er einn af kunnari kaupsýslumönnum á Íslandi og hefur einbeitt sér að náttúruvernd með ýmsum hætti.

DEILA