Leggja til víðtækar aðgerðir um meðferð kynferðisbrota

Samráðshópur um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins hefur skilað lokadrögum að aðgerðaráætlun til dómsmálaráðherra, Sigríðar Á. Andersen. Drögin eru nú aðgengileg á vef dómsmálaráðuneytisins og er unnt að senda ráðuneytinu umsagnir um áætlunina. Vinna við áætlunina hefur staðið yfir í ár en Ólöf Nordal, þáverandi innanríkisráðherra, skipaði samráðshópinn í mars 2016 og fól honum að setja fram tillögur um aðgerðir með það að markmiði að tryggja vandaða, skilvirka og réttláta málsmeðferð við rannsókn mála á þessu sviði og auka traust á réttarvörslukerfinu. Hópurinn átti víðtækt samráð við fagaðila  innan réttarvörslukerfisins, heilbrigðiskerfisins, sem og frjáls félagasamtök sem vinna að málaflokknum, auk fræðasamfélagsins.

María Rut Kristinsdóttir, sérfræðingur í dómsmálaráðuneytinu, er formaður samráðshópsins en ásamt henni sátu í hópnum fulltrúar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, ríkissaksóknara, héraðssaksóknara, neyðarmóttöku Landspítala háskólasjúkrahúss, dómstólaráðs og Lögmannafélags Íslands.

Hópurinn skilaði fyrstu drögum til ráðherra í júní 2016 en í kjölfarið voru drögin kynnt ýmsum aðilum og unnið áfram að útfærslu nokkurra verkefna.

Unnið er að framkvæmda- og kostnaðaráætlun og forgangsröðun aðgerða. Er áætlað að samráðshópurinn ljúki störfum og skili lokaskýrslu og framkvæmdaáætlun með ítarlegri greiningu á kostnaðarmati, mælikvörðum og tímaáætlun aðgerða til ráðherra eigi síðar en í árslok 2017.

Víðtækar aðgerðir lagðar til

Aðgerðaáætlunin skiptist í sex kafla og fjallar hver kafli um aðgerðir sem snerta mismunandi þætti réttarvörslukerfisins, auk aðgerða er varða brotaþola, sakborninga, forvarnir og fræðslu. Voru aðgerðirnar flokkaðar eftir því hvort hægt væri að ráðast í þær strax á næstu tveimur árum eða hvort aðgerðir kynnu að þarfnast frekari úrvinnslu og athugunar af hálfu ráðuneytisins og krefðust aukins fjármagns eða lagabreytinga.

Mörgum aðgerðum hefur þegar verið hrint í framkvæmd. Má þar nefna sem dæmi samræmingu gátlista og verkferla, styttingu málsmeðferðartíma innan kerfisins, bætt gagnaflæði í réttarvörslukerfinu, vinnu að fullgildingu samnings Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi (Istanbúl-samningsins) og loks að koma á fót miðstöð fyrir þolendur ofbeldis í Bjarkarhlíð við Bústaðaveg, sem tók til starfa í febrúar 2017.

DEILA