Kristín keppir í París

Kristín Þorsteinsdóttir.

Sundkonan Kristín Þorsteinsdóttir tekur þátt í Evrópumeistaramóti DSISO í París sem hefst á laugardaginn og stendur til 4. nóvember. Kristín keppir þar í sínum sterkustu greinum. Kristín er einstakur sundmaður á landsvísu og heimsvísu. Á Evrópumeistaramóti DSISO í sundi á Ítalíu í nóvember 2015 setti Kristín tvö heimsmet og tvö Evrópumet ásamt því að vera veitt viðurkenning fyrir bestu frammistöðu mótsins. Afrek sem gerir hana af einum allra fremsta sundmanni í sínum flokki. Á Malmö Open árið 2016 setti hún aftur heimsmet og Evrópumet.

Kristín er núverandi íþróttamaður Ísafjarðarbæjar og hefur hlotið nafnbótina fjögur undanfarin ár, en enginn íþróttamaður hefur hlotið titilinn eins oft. Auk þess að vera afreksíþróttamaður hefur Kristín verið mikil fyrirmynd fyrir aðra íþróttamenn og einstaklinga með Downs Syndrome. Hún hefur fengið fjölmargar viðurkenningar og hvatningu frá fyrirtækjum, einstaklingum og félagasamtökum fyrir störf sín.

Að taka þátt í mótum um Evrópu þvera og endilanga er fjárfrek útgerð og starfrækt er sérstakt stuðningsmannafélag sem er rekið undir hatti íþróttafélagsins Ívars. Stuðningsmannafélagið leitar nú til almennings, fólks og fyrirtækja, um að styðja við bakið á Kristínu í framtíðaráskorunum hennar. Upplýsingar um stuðningsmannafélagið veitir formaður félagsins, Jón Páll Hreinsson.

Hægt að er fylgjast með Kristínu á Facebooksíðunni Sundkonan Kristín.

smari@bb.is

DEILA