Það er ekkert lát á athyglisverðum menningarviðburðum á Ísafirði, hvort sem það er tónlist, leiklist eða myndlist. Á fimmtudaginn ætlar Tríó Inga Bjarna að leika á tónleikum í Edinborgarhúsinu. Tríóið er samstarfsverkefni þriggja tónlistarmanna frá Íslandi og Færeyjum. Markmið samstarfsins er að efla samstarf og samgang á milli íslenskra og færeyskra tónlistarmanna með tónleikahaldi í báðum löndunum. Tríóið spilar nýja spennandi tónlist eftir píanistann Inga Bjarna Skúlason og bassaleikarann Bárð Reinert Poulsen.
Þeir hittust fyrst í Þrándheimi fyrir nokkrum árum á Young Nordic Jazz Comets. Upp kom sú hugmynd um að gera eitthvað saman. Þeir hafa fengið til liðs við sig trommarann góðkunna Magnús Trygvason Eliassen. Tónlistin er undir áhrifum frá norrænum þjóðlögum og jazzi með miklu spunaívafi.