Ég var aldrei barn – erindi í Vísindaporti

Karítas Skarphéðinsdóttir með elstu börnum sínum.

Í Vísindaporti vikunnar í Háskólasetri Vestfjarða verður fjallað um nýja grunnsýningu Byggðasafns Vestfjarða sem opnuð var í sumar. Þar er sögð saga stétta- og kynjaátaka í upphafi tuttugustu aldar frá sjónarhóli Karitasar Skarphéðinsdóttur, sem búsett var á Ísafirði 1922-1938 og barðist á þeim tíma ötullega fyrir bættum hag fiskverkafólks. Erindið flytur Helga Þórsdóttir, menningar- og listfræðingur og starfsmaður Byggðasafns Vestfjarða.

Helga segir að Karítas sé kynnt sem bæði táknmynd staðar og hugmyndafræðilegs samtíma; hún er líkami konu sem ekki var ætlað að hafa yfirráð yfir sjálfri sér. Þannig var skipt á henni og húsi þegar hún var aðeins 16 ára gömul. Femínistinn og heimspekingurinn Rosi Braidotti fjallaði í bók sinni Metamorphoses um afleiðingar þess að tilheyra óskilgreindum minnihlutahópi, eins og fullyrða má um Karítas. Þar segir hún líkamann vera miðju hins pólitíska valds, bæði í hinu stóra þjóðhagslega samhengi og í hinu smáa persónulega samhengi. Þetta er sá kraftur sem hagnýtir sér líkama borgaranna til að keyra heimshagkerfið. Fjöldinn er háður valdi þessara krafta og fer þannig, með hlutverk innskotsins í hinu stóra samhengi valdsins.

Helga Þórsdóttir hefur lokið MA prófi í menningarfræði og MA prófi í myndlist. Hún hefur kennt listasögu, skrifað um myndlist, sett upp myndlistasýningar og starfað að sjálfstæðum rannsóknum um sjónlistir. Helga er núna fastráðinn starfsmaður hjá Byggðasafni Vestfjarða.

Vísindaportið er að vanda öllum opið í kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða og stendur frá 12.10-13.00. Erindið er flutt á íslensku.

smari@bb.is

DEILA