Eflum byggðir landsins

Björn Leví Gunnarsson og Eva Pandora Baldursdóttir

Eitt aðalmarkmið Pírata er valddreifing og sjálfsákvörðunarréttur. Að hver og einn geti haft aðkomu að málum sem hann varðar. Af því leiðir sú stefna okkar Pírata að gera eigi sveitarfélög fjárhagslega sjálfstæð til þess að þau geti staðið undir þeirri þjónustu sem þau eiga að veita. Stóra spurningin er, hvernig förum við að því?

Í dag fá sveitarfélög aðallega tekjur frá útsvari einstaklinga og í gegnum fasteignargjöld. Þessum tekjum er ætlað að standa undir þeirri þjónustu sem sveitarfélögum er skylt að veita. Undanfarið hefur ríkið fært ýmis verkefni yfir til sveitarfélaganna án þess að viðeigandi fjármagn fylgi.

Lausnin við þessu er að gera hluta tekjuskatts fyrirtækja og virðisaukaskatt að útsvari til sveitarfélags. Þannig myndi hluti af hagnaði fyrirtækis sem og sala af vöru eða þjónustu fyrirtækis renna til nærsamfélagsins. Hér er nauðsynlegt að taka fram að ef þú kaupir olíu á bensínstöð í Varmahlíð þá myndi hluti virðisaukaskattsins af olíugjaldinu renna til Skagafjarðar en ekki til sveitarfélagsins þar sem bensínstöðin er með höfuðstöðvar. Þeir sem þekkja til í kerfinu telja þetta vera erfitt í framkvæmd, kerfið virkar ekki svona, en við látum slíkt ekki stöðva okkur. Kerfið er mannanna verk og það er hægt að bæta.

Það besta við þessa breytingu er ekki bara að tekjustofnar sveitarfélaganna verða sterkari heldur verður einnig til hvati til þess að laða að annars konar atvinnustarfsemi en þá sem skilar miklum fasteignargjöldum. Ferðamenn sem flakka um landið og kaupa alls kyns þjónustu myndu skila hagnaði beint í sjóði sveitarfélagsins. Veffyrirtækið út í bílskúr færi allt í einu að standa undir rekstri leikskólans.

Þessi breyting er á kostnað ríkissjóðs en afurðin eru öflugri og sjálfstæðari sveitarfélög. Það gagnast okkur öllum, líka ríkissjóði.

Eva Pandora Baldursdóttir og Björn Leví Gunnarsson

Höfundar eru þingmenn og frambjóðendur Pírata í Norðvesturkjördæmi og Reykjavíkurkjördæmi suður

 

DEILA