Dýralæknir tekur við versluninni í Norðurfirði

Verslunin í Norðurfirði. Ágreiningur um lögheimilisskráningu kom upp í Árneshreppi stuttu fyrir kosningar í vor. Myndin tengist fréttinni ekki.

Ólafur Valsson dýralæknir tekur við versluninni í Norðurfirði í Árneshreppi en búðin mun opna á nú þann 1. nóvember. Kaupfélag KSH á Hólmavík ákvað að leggja niður útibúið í Norðurfirði og auglýsti hreppsnefnd nú í september eftir nýjum rekstraraðila.

Ólafur svaraði kallinu en hann starfaði við dýralækningar um árabil á sínum yngri árum, m.a. í Strandasýslu með aðsetur á Hólmavík. Hann þekkir því nokkuð til svæðisins. Hann hefur enn fremur verið héraðsdýralæknir í Eyjafjarðarsýslu og víðar í um hálfan annan áratug. Hann starfaði í áratug við framfylgni reglna um matvælaöryggi og fleira á erlendri grund og síðustu fimm ár við ráðgjafarstörf á sviði matvælaframleiðslu og landbúnaðarmála víða um lönd. Sem ungur maður starfaði hann með námi við ostagerð. Frá þessu er greint á fréttavefnum Litlahjalla.

Ólafur hefur áhuga á að brydda upp á nýjungum í byggðarlaginu og stuðla jafnvel að framleiðslu matvæla í heimabyggð sem er áhugasvið hans.

Það er þungu fargi létt af íbúum Árneshrepps við þessi tíðindi og fögnuður yfir því að fá nýtt fólk í sveitina.

smari@bb.is

DEILA