Blýanturinn er besta vopnið

Halldór Jónsson.

Grein Sigríðar Gísladóttur,  sem skipar 9.sæti á lista VG í Norðvesturkjördæmi, á bb.is í gær gladdi mig mjög. Þá var loks rofin þögnin sem ríkt hefur hjá frambjóðendum þess flokks í þeim þremur stóru málum sem Vestfirðingar ræddu með svo eftirminnilegum hætti á borgarafundi sínum í haust.

Innihald greinarinnar olli mér hins vegar nokkrum vonbrigðum þó ég hafi talsverðan skilning á þeirri stöðu sem flokksmenn þar á bæ eru í. Þeir eru afar ósamstíga og óljóst hver raunveruleg stefna flokksins er í þessum málum. Í það minnsta hef ég engin svör fengið við einföldum spurningum mínum til frambjóðenda.

Að ásaka menn um að þyrla upp ryki þegar óskað er svara um helstu hagsmunamál fjórðungsins er Sigríði ekki samboðið. Það læt ég liggja á milli hluta.

Höggvið á hnútinn

Það var mjög leitt að þingmaður VG Lilja Rafney Magnúsdóttir skyldi ekki standa með öðrum þingmönnum kjördæmisins að tillögu  um sérlög um vegagerð um Teigsskóg. Tilraun Sigríðar til þess að blanda því máli við Þeistareykjamálið er í besta falli ókunnugleiki Sigríðar. Það mál var leyst með hraði innan gildandi laga og því þurfti ekki að grípa til lagasetningar.

Sérlög um Teigsskóg taka af skarið um val á leiðum. Það verður farið um Teigsskóg. Það hefur verið vilji sveitarfélagsins samkvæmt gildandi aðalskipulagi og er eins og öllum er ljóst öruggasta og hagkvæmasta leiðin og sú sem sérfræðistofnun á þessu sviði, Vegagerðin, telur besta kostinn. Lög um framkvæmdaleyfi eyða óvissu sem felst í málsmeðferð sveitarfélagsins, beinlínis með það að markmiði að koma í veg fyrir tafir vegna kæruferlis innan stjórnsýslunnar. Slík sérlög standast fullkomlega stjórnarskrá.

Að dreifa kröftum

Í stað þess að leysa málið í eitt skipti fyrir öll, þar sem öll rök hafa fyrir löngu komið fram í málinu, leggur Sigríður til að hafnar verði framkvæmdir við þverun Þorskafjarðar. Manni fallast eiginlega hendur þegar slík tillaga kemur fram. Vegur um Þorskafjörð er ekki flöskuhálsinn. Þar er malbikaður láglendisvegur. Að hlaupa til og hefja framkvæmdir á besta kaflanum er glapræði þó ekki væri nema af hagkvæmnisástæðum. Að klippa sundur heildstætt verk dreifir kröftum og eykur mjög kostnað. Það er augljóst af málatilbúnaði VG að flokkurinn vill ekki taka af skarið í málinu. Það á að þæfast áfram í óskiljanlegu skipulagsferli. Hagsmunir tveggja landeigenda eiga að standa framar hagsmunum allra íbúa. Því skal enn ítrekuð fyrri spurning mín: Styðja forysta VG og frambjóðendur hennar í NV-kjördæmi núverandi tillögu Vegagerðarinnar um veglínu um Teigsskóg?

Hver ræður för?

Ég trúi  að Sigríður styðji hugmyndir og fyrirætlanir um fiskeldi í Ísafjarðardjúpi en hún ræður ekki för í sínum flokki eða er ekki svo? Eru Sigríður og Bjarni Jónsson, sem situr í öðru sæti listans sammála um stefnuna í því máli? Hvað finnst Sigríði um þá einörðu skoðun Bjarna, sem sveitarstjórnarmanns í Skagafirði, að „lagareldissveitarfélög“ verði ekki tekin inn í samtök sjávarútvegssveitarfélaga. Hann telur, ef marka má frétt bb.is, að sveitarfélag eins og Skagafjörður eigi meiri hagsmuni af því að vernda villta stofna í veiðiám. Styðja Vinstri Grænir, frambjóðendur þeirra  þ.m.t. Bjarni Jónsson fiskeldi í Ísafjarðardjúpi á grundvelli þeirra mótvægisaðgerða sem eldisfyrirtækin hafa unnið að?

Hver er að hafna rammaáætlun?

Sigríður rifjar upp réttilega að Sjálfstæðisflokkurinn samþykkti ekki tillögu Svandísar Svavarsdóttur um rammaáætlun þar sem Hvalárvirkjun var sem fyrr í nýtingarflokki. Sú afstaða hafði ekkert með skoðun manna á Hvalárvirkjun. Það var pólitískt fikt Svandísar Svavarsdóttur sem sjálfstæðismenn gátu ekki sætt sig við þegar hún fórnaði því faglega ferli sem rammaáætlun hafði byggst á. Það eru einmitt svona spor Svandísar sem hræða svo mikið þegar kemur að málum sem reynt er að ná sátt um. Hún hefur sjaldnast almannahagsmuni í forgrunni eins og Sigríður veit. Því ítreka ég einu sinni enn spurningu mína til frambjóðenda VG: Styðja þeir þær hugmyndir sem nú liggja frammi um virkjun Hvalár í samræmi við títtnefnda rammaáætlun?

Blýanturinn er öflugt vopn

Baráttan um uppbyggingu innviða og atvinnulífs á Vestjörðum á sömu forsendum og í öðrum landshlutum hefur ekki gengið þrautalaust fyrir sig. Þar ræður einkum að hagsmunir íbúanna ráða sjaldnast för. Sú barátta verður að halda áfram eigi ásættanleg niðurstaða að nást. Baráttan á ekki bara að einskorðast við hugguleg kaffiboð.  Kjörklefinn á ekki að vera undanskilinn þeirri baráttu. Þar á að nota blýantinn til þess að velja þá sem í raun hafa barist og eru trúverðugir í þeirri baráttu. Hagsmunir íbúa verða að ráða för. Fáir hafa lýst því betur en Eiríkur Norðdahl: „Og það er hvorki sátt né samlyndi í því fólgið að skilgreina heimkynni fólks sem friðland sem það megi ekki snerta, sem það megi ekki hafa lifibrauð sitt af – að byggðin verði að víkja fyrir óbyggðunum, því réttur óbyggðanna sé meiri. Það er ekki ballans. Það er ofbeldi.“

Halldór Jónsson

DEILA