Björg fær nýjan bát

Nýr harðbotna slöngubátur Björgunarsveitarinnar Bjargar á Suðureyri er kominn í hendur björgunarsveitarmanna, en Samskip styðja sveitina með flutningi bátsins þangað frá Bretlandi. Björgunarbáturinn kom með áætlunarskipi Samskipa til Ísafjarðar um miðja þessa viku.

„Já, hann kom með Skaftafellinu núna á miðvikudag,“ segir Valur S. Valgeirsson formaður Björgunarsveitarinnar Bjargar. Bátinn, sem er harðbotna slöngubátur af gerðinni Atlantic 75, kaupir sveitin í gegn um Slysavarnafélagið Landsbjörgu frá Konunglega breska sjóbjörgunarfélaginu, RNLI, í Bretlandi.

Valur segir vissulega nokkuð fyrirtæki fyrir litla björgunarsveit að ráðast í þessa fjárfestingu, en kostnaður við bátinn sé um sjö milljónir þegar búið sé að búa hann tækjum. „Samskip gerðu vel við okkur í að flytja bátinn til landsins og hafa staðið sig mjög vel,“ segir hann. Sveitin reiði sig við kaupin á stuðning bæði fyrirtækja og einstaklinga. „En þetta náum við að kljúfa með dyggri aðstoð bæði heimamanna og fyrirtækja í kring um okkur.“

Bátur sem sveitin átti fyrir varð fyrir tjóni í sumar og þá segir Valur að ákveðið hafi verið að ráðast í endurnýjun. „Og núna er hann kominn og næstu skref að græja hann upp.“ Tækjum er þá bætt í bátinn og hann búinn undir skipaskoðun.

Valur segir reiknað með því að vígja nýja bátinn 4. nóvember næstkomandi og gefa honum þá nafn. „Við verðum með smá húllúmhæ í kring um þetta, en þá er líka afmælishelgi hjá björgunarsveitinni sem verður 87 ára, var stofnuð 1930.“ Tvö síðustu ár hafa þessa helgi verið haldin „Kótelettukvöld“ en nú verði vígslu nýja bátsins blandað í afmælisfögnuðinn.

smari@bb.is

DEILA