Vestri mætir Magna á laugardaginn

Karlalið Vestra í knattspyrnu heldur til Grenivíkur í næstsíðasta leik tímabilsins og hittir þar fyrir Magna sem nú situr í öðru sæti 2. deildar karla í Íslandsmótinu. Okkar menn eru í 8. sæti og mæta væntanlega grjótharðir á heimavöll Magna og mun ekki af veita miðað við frumleika stuðningsmanna þeirra. Meðfylgjandi „peppmyndband“ birtist á facebook síðu Magna þar sem þeir hvöttu stuðningsmenn til að mæta á völlinn.

Þess má geta að í upphafi leiktímabilsins var Vestramönnum spáð 2. sætið í deildinni og eiga okkar menn því harma að hefna. Sigur Vestra á Aftureldingu um síðustu helgi var svo sannarlega vel þeginn en engu að síður er liðið enn í fallbaráttu og þarf ekkert minna en stjörnuleik á vellinum á Grenivík. Annað sætið er úr augsýn og nú þarf að halda sér í deildinni.

Lokaleikur Vestra er svo á Torfnesi þann 23. september á móti Hetti.

bryndis@bb.is

DEILA