Samþjöppun í sjávarútvegi hefur haldið áfram á síðustu 12 árum. Útgerðarfyrirtækjum með aflahlutdeild hefur fækkað um næstum 60% á 12 árum. Alls áttu 946 útgerðarfyrirtæki aflahlutdeild á fiskveiðiárinu 2005/2006 en nú deila 382 fyrirtæki hlut í aflanum. Fjöldi úthlutaðra þorskígildistonna er þá næstum sá sami, eða um 400 þúsund tonn. Þetta kemur fram á vef Fiskistofu.
Litlar breytingar eru á hvaða fyrirtæki eru í efstu sætunum frá því sams konar upplýsingar voru birtar í mars síðastliðnum, í kjölfar úthlutunar aflamarks í deilistofnum um áramótin og viðbótarúthlutunar á loðnu, að því er segir í tilkynningu Fiskistofu.
Eins og undanfarin ár eru HB Grandi og Samherji í tveimur efstu sætunum. HB Grandi er með um 10,4% af hlutdeildunum en var í mars með 11,3%. Samherji er með 6,2%. Samanlagt ráða þessi tvö stærstu útgerðarfyrirtæki landsins því yfir 16,6% af hlutdeildunum í kvótakerfinu. Í 3. til 5. sæti eru Síldarvinnslan í Neskaupstað, Þorbjörn í Grindavík og FISK-Seafood Sauðárkróki. Efninu tengd, má geta þess að fyrir örfáum dögum keypti FISK-Seafood allt hlutafé í Soffaníasi Cecilssyni hf. á Grundarfirði en fyrirtækið ræður yfir 3.200 tonna kvóta í þorskígildum talið.
smari@bb.is