Snjóflóðavarnir á Patreksfirði í umhverfismat

Patreksfjörður.

Vesturbyggð hefur lagt fram tillögu að matsáætlun vegna áforma um ofanflóðavarnir við Urðargötu, Hóla og Mýrar á Patreksfirði. Vesturbyggð áformar að reisa varnargarð gegn ofanflóðum á Patreksfirði í hlíðunum fyrir ofan þéttbýlið á milli Vatnseyrar og Geirseyrar. Er það gert til þess að stuðla að bættu öryggi íbúa Patreksfjarðar gagnvart ofanflóðum. Gert er ráð fyrir að reisa tvo varnargarða, annarsvegar ofan við Mýrar og Hólagötu og hinsvegar Urðargötu. Hönnun varnargarðanna gengur út á að garðarnir veiti byggðinni vörn gegn hugsanlegum snjóflóðum og leiði flóðin til sjávar. Lögð er áhersla á að milda áhrif varnargarðanna á ásýnd með landmótun og gróðursetningu auk þess að styrkja útivistarmöguleika svæðisins með bættu stígakerfi. Umfang framkvæmdarinnar er slíkt að hún er háð lögum um mat á umhverfisáhrifum.

Afmörkun framkvæmdasvæðisins.

Fyrsti áfangi eru þessi drög að tillögu að matsáætlun þar sem kemur fram hvernig áætlað er að staðið verði að mati á umhverfisáhrifum. Drögin verða kynnt fyrir umsagnaraðilum og almenningi sem hafa tækifæri á að koma með ábendingar hvað varðar áætlunina um matið. Tillagan er síðan send til Skipulagsstofnunar sem tekur ákvörðun um matsáætlun. Annar áfangi felst í rannsóknum, gagnaöflun og vinnu við frummatsskýrslu, þar sem fjallað er nánar um framkvæmdina, valkosti og greint frá niðurstöðum úr mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Skýrslan er kynnt almenningi og umsagnaraðilum sem hafa tækifæri á að koma með athugasemdir og ábendingar er varðar umhverfismatið. Þriðja skrefið felst í því að framkvæmdaraðili vinnur úr athugasemdum og umsögnum sem bárust og bætir inn í matsskýrslu. Skýrslan er send til Skipulagsstofnunar sem gefur álit sitt. Ekki er hægt að veita framkvæmdaleyfi fyrr en álit Skipulagsstofnunar liggur fyrir. Við útgáfu framkvæmdaleyfis verður sveitarstjórn að taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar. Þeir umhverfisþættir sem verða til umfjöllunar í mati á umhverfisáhrifum eru vistgerðir, vatnafar, jarðminjar, fornleifar, hljóðvist, loftgæði, loftslag, útivist, ásýnd og öryggi.

DEILA