Íbúar á Ströndum og við innanverðan Breiðafjörð heyrðu í gær miklar drunur úr lofti. Hljóðin koma frá F-15C orrustuþotum bandarískrar flugsveitar sem er hér á landi við loftrýmisgæslu. Á vef RÚV er hafti eftir Eiríki Valdimarssyni á Hólmavík að hann hafi verið í símanum þegar hávaðinn dundi yfir. „Rúðurnar nötruðu og ég hélt að þær myndu beinlínis brotna. Fólki var ansi brugðið.“ Hann segir að annar hvellur hafi heyrst skömmu fyrir hádegi, sem allir hafi tekið eftir í þorpinu.
Sömu sögu segir Reynir Bergseinsson á Króksfjarðarnesi, en hann hrökk við skömmu fyrir hádegi þegar hann heyrði miklar drunur. „Þetta hefur aldrei gerst áður þegar verndarenglarnir fljúga hér hjá,“ segir Reynir í samtali við fréttastofu RÚV.
Sex bandarískar F-15C orrustuþotur komu til landsins 22. ágúst til að sinna loftrýmisgæslu. Með þeim í för voru eldsneytisbirgðavélar. Þotur sveitarinnar voru á flugi yfir norðvestanverðu landinu. Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni, sem kemur að verkefninu, eru flugvélarnar í löglegri hæð og hefur ekki verið flogið á hljóðhraða. Þó geti veðuraðstæður orðið til þess að hljóðin frá þeim heyrast víðar og meira en stundum áður.
smari@bb.is